131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:31]

Frsm. 1. minni hluta (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur kristallast sá málefnalegi ágreiningur sem er milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarflokkanna. Við í stjórnarandstöðunni hikum ekki við að segja eins og Framsóknarflokkurinn gerði á árdögum sínum að við lítum svo á að skattkerfið sé ekki bara uppspretta tekna til að kosta rekstur ríkisins heldur sé það líka tæki til þess að jafna kjörin. Þetta viðhorf einkenndi þá menn sem upphaflega beittu sér fyrir stofnun bæði Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins fyrir ákaflega löngu síðan og þeir menn sem þá voru í forustu Framsóknarflokksins hikuðu ekki við að snúa bökum saman með forustumönnum í verkalýðshreyfingunni. Hugsjón þeirra var í reynd sú að skapa sameinaða hreyfingu þeirra sem unnu með höndum og í sveita síns andlits annars vegar í landbúnaði til sveita og hins vegar við almenna verkamannavinnu í þéttbýlinu. Hugsjónin var sú að ná saman kröftum þessara tveggja skyldu en þó ólíku aðila til þess að breyta kjörum landsmanna með það fyrir augum að jafna þau.

Ég get þessa, herra forseti, í upphafi máls míns til að sýna hversu langt Framsóknarflokkinn hefur borið af leið. (Gripið fram í.) Hver hefði trúað því þegar einn af hinum ungu sonum á Brúnastöðum í Árnssýslu var að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum að hann ætti einhvern tíma eftir að hnýta sjálfan sig í tagl íhaldsins? Hver hefði trúað því að hæstv. landbúnaðarráðherra sem núna er einn af forustumönnum Framsóknarflokksins ætti eftir að láta leggja sig flatan til að aðstoða Sjálfstæðisflokkinn, íhaldið — forverar hans sögðu einu sinni að allt í veröldinni væri betra heldur en það — að hann væri núna einn af þeim sem mættu í fullu samræmi við veruleikann segja um að væri einn af taglhnýtingum hv. þm. Péturs H. Blöndals? Hverjum hefði dottið það til hugar að varaformaður Framsóknarflokksins ætti eftir að leggja pólitískt líf sitt og póliíska æru sína undir það að hrinda í framkvæmd öfgafyllstu viðhorfum hv. þm. Péturs H. Blöndals? (Gripið fram í: Mikill er mátturinn.)

Ég minnist þess, herra forseti, þegar hv. þm. Guðni Ágústsson var hér óbreyttur á meðal okkar í sölunum áður en honum var lyft til þeirra mannvirðinga sem Framsóknarflokkurinn og íslenskir kjósendur hafa treyst honum til. Þá galt hann varhuga við þeim viðhorfum sem í dag einkenna ríkisstjórn Íslands. Hæstv. landbúnaðarráðherra var þá einn af þeim sem jafnan voru fyrstir til að bregða brandi ef það þurfti að berjast fyrir þá sem voru minni háttar. Það var oft og tíðum glæsilegt að sjá þegar núverandi hæstv. landbúnaðarráðherra henti íhaldsmennina á lofti í glæsilegri sniðglímu og lagði þá jafnan í móðurætt. En þá var hann fullur af hugsjónum, fullur af krafti og draumum þeirra sem í árdaga ruddu brautina fyrir Framsóknarflokkinn. Í dag er hann eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hérna, hann er litla íhaldið. Hæstv. landbúnaðarráðherra og hlutskipti hans er tákn um stöðu Framsóknarflokksins í dag því að hver hefði látið sér til hugar koma að það yrði af öllum mönnum hlutskipti hæstv. landbúnaðarráðherra, bóndasonarins glæsta úr Árnessýslu, að leggjast með þessum hætti hundflatur til að verða eins konar þröskuldur, eins konar ástig fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal sem kemur í dag og segir að allir sínir draumar hafi ræst í dag og að veruleikinn hafi í reynd farið fram úr þeim björtustu vonum (Gripið fram í.) sem hann kvaðst hafa átt þegar hann steig hingað fyrstu skrefin inn á þing fyrir tveimur kjörtímabilum. (PHB: Ég á fullt af draumum eftir.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal getur leyft sér þann munað að hugsa byltingarkennda drauma inn í framtíðina vegna þess að hann veit að á meðan Framsóknarflokkurinn er í þessu farinu getur hann nánast náð öllu því fram sem hann vill. En það var annar hugsjónamaður í Sjálfstæðisflokknum — ég lít svo á að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé hugsjónamaður — það var annar hugsjónamaður í Sjálfstæðisflokknum sem hratt af stað þeirri bylgju frjálshyggjunnar sem hæstv. forsætisráðherra ásamt varaformanni sínum hafa riðið síðustu árin, því það er ekki hægt að segja annað. Þeim hefur verið fleytt til valda á öldufaldi frjálshyggjunnar vegna þess að þeir eru stjórnmálamennirnir sem hafa gert þessum æstustu frjálshyggjumönnum kleift að hrinda draumum sínum í framkvæmd í veruleika. Sá hugsjónamaður sem ég ætlaði að nefna til sögu heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem einmitt í dag að gefa út merka bók og gangi honum vel með hana. En hann var skyggnari en svo margir okkar sem sitja í þessum sölum þegar hann var að spá kristalskúlu stjórnmálanna og horfa inn í framtíðina vegna þess að hann sá fyrir þá þróun sem í dag einkennir vegferð hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins. Hann sagði fyrir fimm árum: „Framsóknarflokkurinn á að ganga inn í Sjálfstæðisflokkinn.“ Þá hlógu nú marbendlar. Þá hló nú sá maður sem stendur hér í dag vegna þess að ég minntist þess að sjálfsögðu hvaða hönd það var sem skrifaði stefnuskrá bæði Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins. Það var hönd jafnaðarmannsins, leyfi ég mér að segja, Jónasar frá Hriflu, þess manns sem mótaði hvað sterkast stjórnmál síðustu aldar, þess manns sem sá fyrir þá draumsýn sem ég lýsti í upphafi ræðu minnar þegar verkamenn sveitarinnar og þéttbýlisins næðu saman til að hrinda í framkvæmd breytingu, til þess að jafna kjörin. Undirstaða þeirrar draumsýnar í verki var að sjálfsögðu skattkerfið sem, má segja, að hafi með vissum hætti tekið mið af átthögum hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins því einu sinni var það þannig að hæstv. landbúnaðarráðherra gat stært sig af því að koma frá þeim einasta parti jarðarkringlunnar þar sem mannshöndin hafði í framkvæmd hrint verki sem sást utan úr geimnum, Flóaáveitunni. Þeir sögðu það stundum gömlu jafnaðarmennirnir sem hugsuðu eins og Jónas frá Hriflu að skattkerfi jafnaðarmannsins og skattkerfi samvinnumannanna, skattkerfi sem þessar tvær skyldu en ólíku hreyfingar börðust saman fyrir á síðustu öld, væri Flóaáveita sem veitti fjármagni frá þeim sem höfðu meira en nóg til að bíta og brenna til hinna sem höfðu minna, mannanna sem Jónas frá Hriflu, Jón Baldvinsson og þeir allir vildu slást fyrir hér á fyrstu áratugum síðustu aldar. Hverjum hefði komið til hugar að það yrði svo hlutskipti Framsóknarflokksins að hrinda í framkvæmd hugmyndum og hugsjónum sem alls staðar á jörðinni er búið að senda á öskuhauga sögunnar nema hér á Íslandi þar sem mönnum eins og hv. þm. Pétri H. Blöndal — og megi hann lof hafa fyrir þrautseigjuna — og mönnum eins og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni tókst að halda neista þessarar draumsýnar á lífi? (Gripið fram í.) En það varð síðan Framsóknarflokkurinn sem blés í glæðurnar þannig að úr þessum neista logaði bál. (Gripið fram í: Er þingmaðurinn með ...?) Og það er þetta bál sem er núna að brenna upp undirstöðu þessa jöfnuðar sem áður einkenndi íslenska skattkerfið. Það er auðvitað sorglegt finnst mér. (Gripið fram í.) Mér finnst að það sé sorglegt að maður eins og hæstv. landbúnaðarráðherra, sem mér fannst áður að hefði í brjósti sér nákvæmlega sömu drauma og þrár þeirra sem vilja jöfnuð og ég og ýmsir aðrir höfðu, sé genginn í björg og orðinn að því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hérna að mætti nota orðin litla íhaldið yfir. (Gripið fram í.) Ég segi hins vegar, herra forseti: Lengi er von á einum og lengi skal manninn reyna. Menn eiga ekki að gefa upp vonina fyrr en (Gripið fram í.) allt um þrýtur. Það var hlutskipti hæstv. landbúnaðarráðherra í dag, ekki bara að greiða atkvæði með og styðja heldur að koma upp í atkvæðaskýringu og verja þær breytingar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal taldi (Gripið fram í.) mesta fagnaðarefni frá því að hann (Gripið fram í: Tekjuskattslækkunar...) steig sín fyrstu skref í stjórnmálum og það var að afnema eignarskatt m.a. á fyrirtækjum og stóreignamönnum. (Landbrh.: Og fátæka fólkinu.) Hæstv. landbúnaðarráðherra kallar fram í: „Og fátæka fólkinu.“ Þar hefur hann rétt fyrir sér vegna þess að eitt af því sem við gerðum í dag, þ.e. meiri hlutinn — rétt skal vera rétt — var að afnema eignarskatt á því sem hæstv. landbúnaðarráðherra réttilega kallar fátæka fólkið.

Herra forseti. En fylgdu ekki fleiri með í þeirri ferð? Sem ég horfist í augu við hæstv. landbúnaðarráðherra, (Gripið fram í.) varaformann Framsóknarflokksins, þá veit ég og finn að hann skynjar að kannski urðu honum á mistök þar vegna þess að ekki voru bara eignarskattar fátæka fólksins afnumdir heldur var líka verið að afnema um leið eignarskatta fyrirtækjanna og stóreignafólksins. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstum því þá að við vildum stíga skref til að koma í veg fyrir að tekjulágir aldraðir Íslendingar væru að greiða óhóflegan eignarskatt. En við vildum ekki að sú breyting yrði líka til þess að stóreignafólkið og fyrirtækin losnuðu við að greiða eignarskatt. Það var þá sem við boðuðum þá tillögu sem ég er í reynd kominn hingað til að mæla fyrir. Það er breytingartillaga frá mér, Steingrími J. Sigfússyni og Guðjóni A. Kristjánssyni einmitt um eignarskatt fátæka fólksins, um þær breytingar sem ætti í reynd að gera þannig að réttlætinu verði fullnægt. Þessi breytingartillaga sem er að finna á þingskjali 659 gerir ráð fyrir því, herra forseti, að fríeignamarkið sem var við lýði verði þrefaldað. Það þýðir í reynd að fátæka fólkið, þ.e. tekjulágir aldraðir einstaklingar sem búa í skuldlitlum eða skuldlausum eignum þurfa ekki að borga eignarskattinn. En við segjum hins vegar í anda þeirrar hugsjónar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti svo ágætlega hérna áðan að við viljum ekki verja milljörðum í að borga líka niður eða afnema eignarskatta stóreignafólksins og fyrirtækjanna.

Við höfum þegar á síðustu árum, síðustu kjörtímabilum, þar á meðal ég, tekið þátt í því að bæta hag atvinnufyrirtækjanna. Ég sat í ríkisstjórn sem tók þátt í að lækka fyrirtækjaskatta úr 50 niður í 30%. Síðan var því haldið áfram og á síðasta kjörtímabili voru þeir lækkaðir úr 30 niður í 18%. Ég segi bara: Það er nóg. Það er búið að gera nóg fyrir fyrirtækin í landinu. Þau standa vel. Við sem sitjum í þessum sölum höfum saman tekið þátt í því að skapa umhverfi sem er þeim ákaflega farsælt og það eru ákaflega margir í þessum sölum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, sem hafa tekið þátt í því verki. Ég segi að í staðinn fyrir að eyða milljörðum í að afnema eignarskatta á fyrirtækjum og stóreignafólki þá vil ég fara þá leið sem er að finna í þessari breytingartillögu og hafa frekar þá peninga sem til falla til að standa undir bótum og framþróun velferðarkerfisins. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að í því sé miklu meira réttlæti fólgið.

Þegar ég sagði fyrr í ræðu minni að lengi væri von á einum þá er ég innst í djúpum huga míns, herra forseti, að vonast til þess að hinn ungi stjórnmálamaður sem ég hitti hér á fleti fyrir árið 1991 sem þá var hv. þm. Guðni Ágústsson, sveitadrengurinn og bóndasonurinn að austan, brjótist skyndilega fram úr gervi hæstv. landbúnaðarráðherra og taki undir með okkur eins og hann hefði gert á vordögum 1991. Það er von mín, herra forseti.

Ég hef áður reifað viðhorf mín og flokks míns til þeirra tillagna og þess máls sem hér liggur fyrir og ég ætla ekki að taka neinn tíma til þess að skýra það frekar. En ég ætla að gleðja Framsóknarflokkinn með einu. Ég ætla að fara héðan úr ræðustól án þess að minnast á matarskattinn nema þá því aðeins að ég verði neyddur til þess í andsvörum.