132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum -- Fríhöfnin.

[12:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru eiginlega tvær spurningar sem hv. þingmaður ber fram. Fyrri spurningin er um það hvað hægt sé að reikna. Það er auðvitað hægt að reikna nánast hvað sem er ef menn gefa sér einhverjar forsendur. Þar sem hv. þingmaður skilur greinilega ekki mínus-skatta þá er það þegar greiðslur úr ríkissjóði eru meiri en skattarnir og viðkomandi fær greitt úr ríkissjóði, svo hv. þm. Kristján Möller skilji þetta nú einu sinni.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spurði hvað fjármálaráðuneytið hefði ekki treyst sér til þess að gera, en það er að meta launaþróunina og leggja hana síðan til grundvallar útreikningnum. Þó að það hafi gerst í tíð fyrrv. fjármálaráðherra að slík niðurstaða fékkst held ég að það sé rétt af fjármálaráðuneytinu að vera ekki að leggja til grundvallar í útreikningum spár um það hver launaþróunin mundi hugsanlega verða. Ef einhverjar tilteknar forsendur eru hins vegar gefnar er hægt að reikna út frá því.

Hvað síðari spurninguna varðar er bæði um að ræða, í dæmunum sem komu fram í fréttatilkynningu ráðuneytisins, tölur sem eru þá launatölur fyrir árið 1994, og þær reiknaðar á reglum ársins 1994, reglum ársins 2006 og reglum ársins 2007, og síðan eru tölurnar uppfærðar miðað við þróun. Þau dæmi sem þarna eru sýna bæði að skattbyrðin er lægri á síðara árinu en á því fyrra — það staðfestir það sem allir hér vita sem hafa glöggvað sig á þessu án þess að vera með pólitísku gleraugun sín á nefinu (Forseti hringir.) að um raunverulegar skattalækkanir hefur verið að ræða.