132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Nýting vatnsafls og jarðvarma.

458. mál
[13:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Maður er nefndur Finnur Ingólfsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Árið 1999 ýtti hann úr vör gerð svokallaðrar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þá stóð ríkisstjórnin frammi fyrir miklum deilum vegna áforma um að reisa Fljótsdalsvirkjun og úr varð á stjórnarheimilinu að leggja í þá vegferð sem rammaáætlunin hefur verið. 1. áfanga áætlunarinnar var skilað í nóvember 2003, minnir mig, fyrir rúmum tveimur árum. Og eins og alkunna er hefur lítið sem ekkert verið gert við niðurstöður þess áfanga. Góðu samstarfi við Landvernd var slitið fyrir réttu ári. Engar fréttir er lengur að hafa af framgangi gerðar rammaáætlunarinnar á heimasíðu Landverndar. Að því er ég best veit hefur 2. áfangi verið settur í þriggja manna nefnd og síðan hefur ekkert til hans spurst. Þetta boðar ekki gott, forseti. Við sem kannski í einhverjum barnaskap héldum að hægt væri að nýta gerð þessarar rammaáætlunar til að búa til raunverulega áætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til framtíðar, spyrjum okkur hvað líði vinnu við 2. áfanga og kannski er ekki úr vegi að bæta bara við spurningunni: Hvað varð um niðurstöður 1. áfanga? Hvað hyggst hæstv. iðnaðarráðherra gera við þær?

Eins og við vitum hefur hér margítrekað komið fram að rammaáætlunin sem slík hefur ekkert lagalegt gildi og um það var greinilega tekin pólitísk ákvörðun á sínum tíma að svo yrði. En við þessa rammaáætlun hafa unnið margir fremstu vísindamanna okkar á sviði nýtingar vatnsafls og jarðvarma og náttúrufræðingar og aðrir. Þetta er mikil og góð vinna en hún er nú þegar að verða gömul. Við horfumst nú þegar í augu við að þær rannsóknir sem gerðar voru vegna fyrsta áfanga þarf að fara að gera aftur, a.m.k. einhvern hluta þeirra. Það þarf að gera mun meiri frumrannsóknir á náttúrufari og öðru en gert hefur verið. Þess vegna verð ég að segja, forseti, að ég hef nokkrar áhyggjur af því að gerð rammaáætlunarinnar sé komin ofan í skúffu í iðnaðarráðuneytinu hjá hæstv. iðnaðarráðherra og ég vænti þess að hún svari því hér (Forseti hringir.) hvar málið standi.