132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skólafatnaður.

441. mál
[14:28]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í máli manna hér, m.a. í máli hv. fyrirspyrjanda Björgvins G. Sigurðssonar, að það er ýmislegt sem mælir með að tekinn sé upp skólabúningur, t.d. einelti og mismunandi efnahagur Íslendinga. Það má líka hafa ýmis ráð til að minnka þennan sjáanlega mun, t.d. með töskum eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir minntist á, eða eins með peysum eða öðrum einkennisfatnaði fyrir börnin, hugsanlega efldi slíkt samkennd þeirra. En ég held að það væri allt of mikið í fang færst að ætla sér að koma upp allsherjarskólabúningi. Sum sveitarfélög hafa hins vegar tekið upp eitthvað sameiginlegt fyrir nemendur sem gæti verið til bóta.