137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur var æði kaflaskipt og tilfinningaþrungin. Mig langar að spyrja hana þriggja spurninga í ljósi fyrri hluta ræðunnar því að í seinni hluta ræðunnar ræddi hún eingöngu um samstöðu þingmanna á Alþingi Íslendinga í þá veru að leysa þann vanda sem við blasir í Icesave-deilunni. Við getum verið sammála um að þar þurfi samstöðu til að leysa málið og vonandi tekst það þó að ýmsar blikur séu á lofti um að sú samstaða kunni að vera að rofna.

Í ljósi ræðu hv. þingmanns spyr ég hana þriggja spurninga: Hver er skoðun hv. þingmanns á framgöngu og yfirlýsingum forsvarsmanna ríkisstjórnarflokkanna vegna Icesave?

Í öðru lagi: Telur hv. þingmaður að skipunarbréf samninganefndarinnar hafi ekki verið sett með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hv. þingmann í ljósi umræðu hennar um kapítalisma og arðrán: Telur hv. þingmaður að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, sé fulltrúi kapítalismans og arðráns?