137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:52]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni tel ég að allir sem hafa komið að þessu erfiða máli hafi verið að gera sitt allra besta með hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Það á svo sannarlega við um forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og þá samninganefnd sem leiddi þessar erfiðu viðræður. Ég skildi þingmanninn svo að hún væri að spyrja mig að þessu. Ég ítreka það að ég tel að allir hafi verið að gera sitt allra besta og ég held að núna séum við hér sem þingmenn þvert á flokka að gera okkar besta við að vernda og verja hagsmuni Íslands.

Spurningin um Gordon Brown sérstaklega, hvort hann sé fulltrúi kapítals og arðráns þá vill þannig til að pólitískt séð er ég honum afar ósammála um margt. Ég tel hann allt of langt til hægri eins og ég hygg að hv. þingmaður skilji hvað mig varðar. Hins vegar er þetta ekki þannig að það sé vondi kallinn og góði kallinn í þessu máli. Við berum öll, allir sem koma að þessu máli, bæði Ísland, Bretar, Hollendingar, Evrópusambandið og aðrir, sameiginlega ábyrgð. Þannig verður að leysa þetta mál og ganga endanlega frá því og ég tel að með þeim breytingartillögum sem við erum að leggja fram og munu verða unnar áfram séum við einmitt að segja: Við ætlum að bera okkar ábyrgð, við ætlum að vera sanngjörn en við krefjumst þess líka að það sé komið fram af sanngirni gagnvart okkur á Íslandi.