138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[09:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Maður er í hálfgerðu sjokki eftir orð síðasta ræðumanns. Ég veit ekki hvar hann hefur verið þegar við höfum verið að ræða þessi skattamál og þegar stjórnarandstaðan hefur komið á framfæri sínum skoðunum.

Ég vara við þeirri vitlausu braut sem þessi ríkisstjórn er að fara út á. Hér er ekki verið að auka jöfnuð. Fólk í landinu á eftir að sjá það og brenna sig á því að þessi ríkisstjórn er að auka ójöfnuð. (Gripið fram í.) Nú er skorið niður í heilbrigðismálum og hverjir munu borga það, hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra? Sjúklingarnir munu borga þetta. Fólk þarf að ferðast á milli landshluta til að ná sér í þjónustu sem það getur núna fengið heima hjá sér. Það er verið að skera niður velferðarkerfið, hv. þingmaður. Þetta er því ríkisstjórn ójöfnuðar sem hér er á ferð.

Við vörum við þessu. Það er hægt að ná þeim tekjum sem ríkið þarf með öðrum leiðum, með því að nota það skattkerfi sem við eigum í dag og stuðla að atvinnuuppbyggingu sem þessi ríkisstjórn gerir ekki. Þannig er hægt að ná sér í tekjur. Það á ekki að skattpína og skera þjóðina niður úr þessum vanda sem hún er í. (Gripið fram í: Heyr.)