141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[11:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er skattahluti frumvarpsins. Læknafélag Íslands hefur bent á það í umsögn sinni að gjaldið beri öll merki skatts fremur en gjalds sem standa eigi undir kostnaði við eftirlit. Síðan vekur félagið líka athygli á því að í frumvarpinu sé verið að opna frekari heimildir til að leggja á sérstakt viðbótargjald vegna mats á umsóknum um klínískar prófanir á lækningatækjum.

Ég vek athygli á því að í 12. gr. gildandi laga er kveðið á um að innflytjendur og framleiðendur skuli greiða þjónustugjald vegna markaðseftirlits o.s.frv. Þar eru til heimildir til að innheimta slíkt þjónustugjald. Af hverju eru þær ekki nýttar? Það er vegna þess að verið er að leggja til nýja skattlagningu. Það er nefnilega ekki verið að leggja til nýtt þjónustugjald eða þjónustugjald. Þess vegna er þetta frumvarp komið fram að gildandi lög kveða eingöngu á um þjónustugjaldtöku en ekki skattlagningu. Hérna er verið að afla heimildar til skattlagningarinnar. Það liggur þá fyrir svart á hvítu.