145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:26]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ef ekki er tilefni til að ræða störf þingsins á þessum tímapunkti þá veit ég ekki hvenær ástæða er til að ræða þau. Á hvaða stað er þessi umræða nú um fjárlögin? Er hún ekki komin í ákveðna sjálfheldu sem við sjáum í rauninni ekki fyrir endann á? Við ræðum hér daga og nætur um fjárlögin svo ég taki nú bara dæmi um einn ágætan þingmann, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, einn daginn hélt hann þrjár ræður, eina ræðu fyrir hádegi, aðra eftir kvöldmat og þriðju ræðuna eftir miðnætti og svo eftir bloggfærslur fram undir morgun mætir hv. þingmaður hér úrillur og argur yfir því að helst allur þingheimur eða einstakir þingmenn hlusti ekki á ræðu hans.

Ég hef tekið þátt í vinnu um fjárhagsáætlun sveitarfélaga þar sem menn vinna allt haustið saman að því að finna hvernig peningum er best varið hjá sveitarfélögum næsta árið. Hér situr fjárlaganefnd eftir að frumvarp um fjárlög er lagt fram, í þessu tilfelli 10. september. Fram til 8. desember er fjárlaganefnd að taka á móti gestum og skila áliti. Um leið og komið er fram í þingið (Forseti hringir.) er eins og hv. félagar mínir í fjárlaganefnd umturnist og breytist í aðrar persónur. Menn vinna sameiginlega að málefnunum í nefndunum (Forseti hringir.) þannig að ég leyfi mér að stórefa það að aðferð Pírata um að þetta gerist allt á netinu í opnu ferli sé lausnin. Ég hvet þingheim að klára 2. umr. um fjárlög svo við getum tekið málið inn í nefnd aftur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna