145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og ég sagði hér áðan þá þurfum við að hafa áhyggjur af undirliggjandi rekstri ríkissjóðs. Það kemur ágætlega fram í ritinu Stefnu og horfum, bls. 61 og 62, að ef engir liðir eru undanskildir þá námu tekjur ársins 34,6% af landsframleiðslu. Það skýrist meðal annars af arði Landsbankans þar sem útgreiðsluhlutfall var óvenjuhátt og sérstökum arði vegna lækkunar stofnfjár Seðlabankans, að auki var bankaskatturinn lagður á. Þegar þessir stofnar hverfa verður heldur lítið eftir. Það eru ekki að koma inn nægjanlega miklir skattar til að við getum rekið hér sæmilegt velferðarkerfi og haft samneysluna með þeim hætti sem hún á að vera. Þess vegna höfum við gagnrýnt það og sagt að ekki sé tímabært að falla frá ýmsum skattheimtum sem voru á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir að þeir skattar hafi verið lagðir á tímabundið. Það er ákvörðun sem er breytileg (Forseti hringir.) eins og svo margar aðrar. Það þarf ekki annað en að lesa þetta rit til að átta sig á því.