145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mun segja nei í þessari atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: Nei.) — Það var það sem ég sagði. [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að ég hef lagt fram í ríkisstjórn frumvarp þar sem er gert ráð fyrir að ekki gangi eftir sú lækkun sem við ákváðum hér fyrir nokkru síðan. Fyrir því hef ég fært rök, m.a. þau að kostnaðarhækkanir hafa komið í ljós hjá Ríkisútvarpinu, bæði hvað varðar laun og dreifikerfi, sem gera að verkum að rétt er að endurskoða þessa ákvörðun. Ég hef ekki gefið frá mér og mun vinna að því að koma þessu máli áfram og mun þess vegna segja nei í atkvæðagreiðslunni.

Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið um að mikilvægt sé að horfa til framtíðar hvað varðar Ríkisútvarpið, hvert hlutverk þess eigi að vera og hvernig því verði best sinnt. Það eru ýmsar breytingar sem kalla á að við endurskoðum ýmsa þætti hvað varðar rekstur Ríkisútvarpsins. (Forseti hringir.) Við skulum líka horfa til þess að Ríkisútvarpið er ekki eitt á (Forseti hringir.) fjölmiðlamarkaði. Það eru ýmsir aðrir fjölmiðlar hér í landinu, (Forseti hringir.) sem hafa margir hverjir staðið frammi fyrir þeim veruleika að þurfa að segja upp starfsfólki.