145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er nú engin ástæða fyrir hv. þingmenn að missa sig. Þetta eru 75 millj. kr. til að hefja ákveðna vegferð. Málið er svo sannarlega á forræði hv. forsætisnefndar og ekki er verið að hanna eitt eða neitt hús hér með þessum 75 millj. kr. Eftir því sem ég veit best er það líka bundið í lög að við þurfum, ef af þessu verður, að bjóða út bæði hönnun og ég tala nú ekki um byggingu hússins. Ég held að menn eigi nú ekki að lesa meira í þetta en svo. (Gripið fram í.) — Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir á bágt með sig eins og svo oft áður. Hv. þingmaður þarf að eiga það við sig. En ég segi að sjálfsögðu já við þessu. Málið er á forræði hv. forsætisnefndar. Ég treysti henni til að vinna vel úr þessum málum.