145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þann stuðning sem er við þessa tillögu. Það sýnir að hægt er að ná saman um ákveðna og góða hluti. Það er ljóst að um er að ræða fyrsta áfanga að því að vinna niður biðlista sem söfnuðust upp í verkfallinu. Stærstur hluti þessarar fjárveitingar mun að öllu óbreyttu renna til Landspítalans til að vinna þar að ákveðnum hlutum, og mætir að einhverju leyti þeim óskum sem Landspítalinn hefur borið á borð fyrir þingið.

Ég þakka starfsfólki Landspítalans fyrir atbeina þess við að vinna þessu verkefni framgang sem lýtur að því að gera tilraun til að útrýma lifrarbólgu C. Ég þakka einnig stuðning þingsins við það því að þetta er verkefni sem ekki hefði verið unnið án þess að þessir aðilar næðu saman um það mál. Hér er 280 millj. kr. fjárveiting til að hleypa því verkefni af stokkunum sem að öllu óbreyttu mun verða til fyrirmyndar á heimsvísu. Við skulum þakka fyrir það og líka minnast þess, þegar við ræðum heilbrigðiskerfið, að þar er einnig ýmislegt margt gott að gerast.