146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

sala Seðlabankans á hlut sínum í Kaupþingi.

[10:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Seðlabanki Íslands seldi í haust um 6% hlut í Kaupþingi. Stuttu síðar, eða um tveimur mánuðum síðar, virtist sá hlutur hafa hækkað um fjóra til fimm milljarða. Það var rekið til þess að samkomulag var gert við Deutsche Bank þar sem þýski bankinn samþykkti að greiða um 50 milljarða til Kaupþings. Kaupendur að bréfum Seðlabankans munu hafa verið hinir sömu og nýlega hafa fest sér stóran hlut í bankanum. Þetta er rekið nokkuð skilmerkilega í viðskiptakálfi Fréttablaðsins 29. mars. Þar kemur einnig fram að Seðlabankinn segist ekki hafa haft upplýsingar um að viðræður Kaupþings og Deutsche Bank stæðu yfir og að slíkt samkomulag hefði verið í undirbúningi. Kaupþing vilji á hinn bóginn ekki staðfesta að slíkt samkomulag hafi legið fyrir í október eða skömmu áður en viðskiptin áttu sér stað.

Frú forseti. Við lestur fréttarinnar vaknar eðlilega sú spurning hvort Seðlabankinn hafi sett í samninginn um sölu á bréfunum svokallað leiðréttingarákvæði, þ.e. að ef hlutur Seðlabankans yrði verðmætari á síðari stigum nyti Seðlabankinn þess með einhverjum hætti.

Ég hygg að flestir séu minnugir sölu Landsbankans á hlut í Borgun hér um árið. Ekkert slíkt ákvæði var í sölusamningnum þá og ríkisbankinn varð af umtalsverðum fjárhæðum.

Mig langar til að spyrja gæslumann íslensks almennings í þessu máli, hæstv. forsætisráðherra, en undir hann heyrir Seðlabanki Íslands, hvort hann viti til þess að Seðlabankinn hafi sett leiðréttingarákvæði í samninginn og þá einnig hvort hann hyggst kanna það af hverju samkomulag Deutsche Bank og Kaupþings, sem líklega var tilbúið í október, barst svona seint. Því ef marka má frétt í Viðskiptablaðinu í gær kynnti Frank Brosens, stofnandi og eigandi Taconic Capital, á fjárfestingaráðstefnu í Chicago í lok október í fyrra að hann teldi rétt verð á bréfum Kaupþings í kringum 100, sem er umtalsvert hærra gengi en Seðlabankinn seldi. Spurningin er: Er nýtt Borgunarmál í uppsiglingu?