146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er vissulega gleðiefni hversu margir þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa séð sér fært að mæta í þessa atkvæðagreiðslu, það hefði verið gaman að sjá fleiri mæta hér þegar við vorum að ræða þetta mál. Þetta er flókið mál, þetta er stórt mál. Það er kannski ekki upp á margar blaðsíður, en búið er að telja hér upp ótrúlega margar góðar ástæður fyrir því að hafna þessu máli, rosalega margar góðar ástæður. Það er í raun bara ein sem skiptir máli. Þessi fjármálastefna uppfyllir ekki ákvæði laga um opinber fjármál. Það eitt og sér á að vera næg ástæða til að segja nei við þessu. Alveg sama hversu mikið eða lítið fólk fylgdist með umræðunni um þessa stefnu þá ættu allir að átta sig á því að þetta er vond stefna sem uppfyllir ekki lögin. Því ættu allir að segja nei eins og þingflokkur Pírata mun gera.