149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu ágætisyfirferð yfir hana og þakka honum einnig fyrir þann blíða tón mannréttinda og mannúðar sem ég greini í hans máli, bæði þegar hann fór yfir þetta mál og einnig í öðrum ummælum hans hér.

Mér finnst þetta hin ágætasta tillaga og vel þess virði að skoða að móta stefnu sem efli fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og það er ekki bundið við okkur hér. Það eru lönd alls staðar í heiminum að ræða sömu hluti, hvernig best verður að þessum málum staðið. Ég held að það sé alltaf gott að móta stefnu, setjast niður og fara yfir hvernig er best að gera hlutina og án þess að ég hafi farið í þaula yfir þetta mál þá er ég mjög jákvæður í garð þessarar hugmyndar.

Ég kom hér upp ekki síst til að vekja athygli á tveimur nátengdum málum, öðru hér, en hinu á vettvangi Norðurlandaráðs. Hv. þm. Guðjón Brjánsson er í velferðarnefnd og þar er m.a. verið að fjalla um tillögu um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda. Ég vona að hún rúmist í þeirri hugmynd sem flutningsmenn þessa máls hafa um stefnu sem rétt er að móta um að efla fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi þótt ekki sé minnst á hana hér, kannski eðlilega þar sem hún er ekki orðin að veruleika. Ég hef enda sagt að það skipti litlu máli hvað sú stofnun sem það hlutverk fær heiti, bara að hún hafi þetta samræmingarhlutverk og veiti upplýsingar um alla þá þjónustu sem fólk af erlendum uppruna þarf á að halda við komuna til landsins, hún sé sameinuð á einum stað. Ég vona að flutningsfólk þessarar tillögu líti þá tillögu mjög jákvæðum augum, því það er nákvæmlega sami andi sem býr þar að baki; að samræma og finna út hvernig gera eigi hlutina sem best með hagsmuni þeirra sem þurfa á að halda í huga.

Hins vegar stóðst ég ekki mátið að koma hér upp af því að ég sat á fundi velferðarnefndar Norðurlandaráðs í gær og þessi tillaga kallast mjög vel á við þá vinnu sem unnið er að á vettvangi Norðurlandaráðs. Þar var kynnt vinna sem einmitt snýr að því sem þar er kallað aðlögun flóttafólks og innflytjenda og er býsna áhugaverð, bæði mikil rannsóknarvinna og einnig beinn stuðningur við ákveðin verkefni. Ég vildi eiginlega hvetja þá hv. þingnefnd sem fær málið til meðferðar, sem væntanlega er velferðarnefnd, til að kynna sér það sem þar er verið að gera. Eitt af því er að samræma hagtölur, eins gríðarlega óspennandi og það hljómar, á öllum Norðurlöndunum. Staðreyndin er sú að við skilgreinum á ólíkan máta hvað er flóttafólk og hvað eru innflytjendur. Þess vegna er samanburður á stefnum og hvað hefur best gefist oft erfiður, en þarna er stofnun sem hefur horft yfir þetta.

Ég sé t.d. að hér er skilgreining í þessu máli á innflytjendum sem er ekki í öðrum málum þessu tengdu, þannig að það eru til margar skilgreiningar. Það er mjög gott að horfa til þess sem þarna er verið að vinna, því þar hefur líka verið farið yfir það sem er verið að gera í öðrum löndum. Löndin taka mismunandi á þessum málum með mismunandi áherslur. Sums staðar er mesta áherslan lögð á atvinnuþátttöku eins fljótt og mögulegt er. Annars staðar er mesta áherslan lögð á menntun og þegar ég segi að mesta áherslan sé lögð á eitthvað þá þýðir það ekki að ekki sé áhersla lögð á hitt, heldur snýst þetta um forgangsröðun.

NordForsk, Norræna rannsóknarsetrið, hefur stutt þessar rannsóknir allar og heitir á engilsaxnesku, með leyfi forseta, „New Nordic Research Programme“. Þessi sérstaklega áhugaverða rannsókn heitir það kannski vegna þess að í henni taka þátt Noregur, Svíþjóð, Finnland og Bretland. Þarna held ég að sé mikill fróðleikur sem hægt væri að nýta við þá vinnu sem við munum sem samfélag held ég alltaf þurfa að fara í um mótun stefnu sem þessarar sem hér er lagt til að fari í gang.

Aðaláhersla í þessari vinnu hefur verið á atvinnuþátttöku og jafnframt á börn, bæði fylgdarlaus börn og svo börn í fylgd með fjölskyldum. Stefnan er að fólk fái vinnu innan fjögurra vikna áður en það kemur til landsins. Þetta eru ýmis markmið sem ég held að við sem þingheimur og þingnefndin sem fær þetta mál til umfjöllunar getum kynnt okkur. Ég er boðinn og búinn þar sem ég sit í velferðarnefnd Norðurlandaráðs að vísa á, ef óskað er eftir því, þessa vinnu alla sem ég er að tala um.

Annars vil ég bara ítreka, forseti, að mér finnst þetta jákvætt mál. Við hljótum öll að vilja að því fólki sem hingað leitar af einhverjum ástæðum líði sem best, svo einfalt er það nú, að það sé á sem bestan hátt hægt að styðja við það og taka eins vel á móti því og mögulegt er.