150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

málefni flóttamanna og hælisleitenda.

[15:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það var vissulega ágætt hjá ráðherra að kynna lágmarksbreytingu í gær sem tryggir Muhammed og fjölskyldu dvalarleyfi en við getum spurt okkur: Hefði eitthvað verið gert ef þjóðin hefði ekki tekið málið í eigin hendur? Ítrekað hefur nefnilega fólkið í landinu þurft að bjarga einstaklingum í erfiðri stöðu með samtakamætti sínum. Það er ekki nóg að stjórnvöld grípi inn í gagnvart fólki sem er með gott tengslanet eða hreyfir við okkur á einhvern hátt. Við þurfum líka að breyta kerfi sem er ósveigjanlegt og óréttlátt og það er mjög margt sem við getum gert. Haustið 2017 sammæltust allir formenn flokka sem þá áttu sæti á þingi, fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn, um tímabundna breytingu á útlendingalögum og jafnframt að bæta lagaumhverfi og stjórnsýslu til að tryggja stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu strax að loknum kosningum. Nú hafa 26 mánuðir liðið og ekkert hefur gerst annað en að fyrirrennari ráðherra lagði fram frumvarp sem skerðir frekar réttindi og kjör þeirra sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd.

Ég spyr því ráðherra: Mun hún setja það frumvarp til hliðar og veita þingmannanefndinni umboð til að bæta stöðuna eða á þingmannanefndin kannski að taka viðmið af því frumvarpi sem gerir endurupptöku mála erfiðari, takmarkar andmælarétt, styttir tíma fólks til að afla gagna, auðveldar brottvísanir til Grikklands og kemur í veg fyrir að aðstandendur kvótaflóttafólks geti fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar?