150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

málefni flóttamanna og hælisleitenda.

[15:09]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hv. þingmaður vísar til var til umfjöllunar í þverpólitísku þingmannanefndinni fyrr í haust til að fá umræðu um það og ábendingar ef einhverjar væru. Það frumvarp lýtur að miklu leyti að því að hraða málsmeðferð, sér í lagi í verndarmálum sem hv. þingmaður nefndi í fyrri ræðu sinni. Það eru þessi verndarmál þar sem aðili hefur fengið vernd annars staðar. Við erum t.d. ekki að senda fólk, eins og hv. þingmaður nefndi, til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, því hættum við 2010. En við sendum fólk annað eins og önnur Evrópuríki sem við höfum fylgt í framkvæmd, eins og Norðurlöndin, á grundvelli þess að fólk hefur vernd nú þegar í því landi. Það gerist þó ekki sjálfkrafa af því að kerfið okkar er það vel uppbyggt að við gerum einstaklingsbundið mat við hvert og eitt mál. Það gerist því ekki sjálfkrafa og það hefur oft gerst í tilvikum þar sem fólk hefur hlotið vernd annars staðar að það hlýtur samt efnismeðferð á Íslandi, af því að það fer fram einstaklingsbundið mat. Þannig viljum við að kerfið okkar virki og það er þannig í dag. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt að byggja það upp og þingmannanefndin hefur nú þegar, síðastliðinn föstudag, fjallað um málefni barna og ég óskaði eftir að sú vinna héldi áfram.