151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Evrópuráðsþingið 2020.

493. mál
[14:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Evrópuráðið, og Evrópuráðsþingið þar með, er ein allra mikilvægasta stofnun sem við Íslendingar eigum aðild að sem fjallar um mannréttindi, lýðræði, lög og reglur. Við höfum verið svo lánsöm að hafa verið aðildarríki að Evrópuráðinu frá 1950 og innleitt inn í lög okkar mörg ákvæði og tilskipanir frá Evrópuráðinu, þar á meðal Istanbúl-samninginn og fleiri góðar tilskipanir.

Síðasta ár í starfi Evrópuráðsþingsins hefur verið viðburðaríkt eins og ætla má, enda gætti áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar á málefnasvið og starf Evrópuráðsþingsins, eins og í öllu alþjóðastarfi Alþingis á þessu ári. Samt sem áður verður að segja eins og er að þrátt fyrir heimsfaraldurinn er ég gríðarlega stolt af því að Evrópuráðsþingið sjálft stöðvaði ekki starfsemi sína heldur hélt þvert á móti fjöldann allan af fjarfundum og reyndi sitt besta til þess að þingið gæti starfað við þær aðstæður sem við höfum búið við í tæpt ár, enda mikil þörf á því þar sem í Covid-19 hefur einmitt verið mikil nauðsyn á því að halda vörð um mannréttindi ýmissa hópa samfélaganna í aðildarríkjunum.

Ég vil líka þakka hlý orð í minn garð frá nýskipuðum formanni Íslandsdeildarinnar og óska honum sömuleiðis alls hins besta í sínum störfum, þó svo að skammt sé kannski eftir af þinginu. En mig langar aðeins að tæpa á nokkrum hlutum hér sem við í Evrópuráðinu og Evrópuráðsþinginu höfum verið að fást við undanfarið ár og það eru ekki litlir hlutir heldur ansi stórir. Það er eiginlega með ólíkindum að hugsa til þess að fyrir ári síðan hafi verið haldnir síðustu fundir í Strassborg, sem voru haldnir 27. til 31. janúar 2020. Á þeim fundi var Rik Daems, þingmaður frá Belgíu og formaður flokkahóps frjálslyndra, kjörinn forseti þingsins. Hann er þingmaður sem hefur mikinn metnað og atorkusamur þingforseti og lýsti því strax yfir að hann ætlaði að heimsækja öll aðildarríkin en vegna heimsfaraldurs hafa orðið nokkrar breytingar þar á. Engu að síður kallaði nýr forseti þingsins eftir nýrri bókun við mannréttindasáttmála Evrópu um loftslagsmál og sagðist myndu vinna ötullega að framgangi innleiðingar Istanbúl-samningsins hjá þeim ríkjum sem það eiga eftir. En eins og við vitum öll er Istanbúl-samningurinn eitt mikilvægasta plagg sem við eigum aðild að og fjallar um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi.

Ég vil líka þakka hér þeim þingmönnum sem hafa verið hvað ötulastir í starfi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Vil ég þar nefna sérstaklega Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sem hefur setið sem formaður laga- og mannréttindanefndar þingsins á þessu tímabili, og gerði það með sóma. Sömuleiðis vil ég nefna Birgi Þórarinsson sem í varamennsku sinni í deildinni hefur látið til sín taka þegar hann hefur getað. Til að mynda tók Birgir þátt í umræðum um kosningaeftirlit í Hvíta-Rússlandi, þar sem hann tók þátt í því eftirliti, á þinginu síðasta í janúar fyrir ári síðan og Þórhildur Sunna var sömuleiðis framsögumaður ályktunar um pólitíska fanga í Aserbaídsjan.

Í janúar síðastliðnum samþykkti Evrópuráðsþingið að hefja virkt eftirlit með framfylgd Póllands á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu og ekki vanþörf á eins og sést hefur á síðustu mánuðum þar sem fjölmenn mótmæli hafa átt sér stað í Póllandi varðandi niðurstöðu stjórnlagadómstóls Póllands um Istanbúl-samninginn og þungunarrof. Þessu hafa þingmenn Evrópuráðsþingsins og Evrópuráðið sjálft og mannréttindastjóri Evrópuráðsins mótmælt harðlega.

Fyrir ári síðan tók þingið sérstaklega til umfjöllunar stöðu barna fólks sem gengið hafði til liðs við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Í ályktun þingsins, sem er mjög merkileg að mínu mati og annarra, var kallað eftir því að aðildarríki Evrópuráðsþingsins flyttu börnin heim án tafar með vísun í skuldbindingar landanna gagnvart sáttmálum Evrópuráðsins og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ítrekað var að börn bæru ekki ábyrgð á ákvörðunum foreldra sinna eða aðstæðum sínum. Þar tók undirrituð til máls í sameiginlegri umræðu um þær ályktanir og minnti á að aðildarríki Evrópuráðsins hefðu skuldbindingum að gegna gagnvart börnum og réttindum þeirra. Einnig voru til umræðu ályktanir um aðgerðir gegn mansali og smygli og börn á faraldsfæti, flóttabörn, sem hafa því miður horfið í Evrópu og í aðildarríkjunum, og gera þarf mikinn skurk í því að finna þau.

Síðan langar mig að minna á það að síðasti staðfundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins, þar sem allir formenn landsdeildanna sitja, var haldinn í París 6. mars sl. Á þeim fundi var samþykkt ályktun um baráttu gegn ofbeldi og mismunun gagnvart trúarlegum minnihlutahópum meðal flóttamanna í Evrópu. Þetta mál hefur ratað hingað í sali Alþingis þar sem sú sem hér stendur hefur lagt fram frumvarp og þingsályktunartillögu er fjalla um mismunun gagnvart trúarlegum minnihlutahópum og þar þurfum við líka að átta okkur á þeirri gríðarlega alvarlegu þróun sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði.

Eftir þennan fund í mars var ákveðið að funda með fjarfundabúnaði. Eins og ég nefndi hér í upphafi tókst það með ágætum. Ég held að af öllum alþjóðanefndum þingsins hafi Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins verið virkust í fjarfundastarfinu og er það vel og ég er gríðarlega ánægð með það. Við fjölluðum ansi mikið um áhrif Covid, til að mynda á heimilisofbeldi, á andlegt ofbeldi og jafnvel á ofbeldi þegar kemur að aðgangi að heilbrigðisþjónustu, ofbeldi og takmarkanir er varða aðgang kvenna að þungunarrofi og hvernig Covid-19 hefur komið illa við þau sjálfsögðu réttindi.

Ég vil líka minna á það sem núverandi formaður minntist hér á í framsöguræðu sinni. Forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar kom á okkar fund 26. júní sl. og náði ég að spyrja hann, Tedros Adhanom Ghebreyesus, um áhrif heimsfaraldursins á flóttafólk og innflytjendur og bað hann að fjalla nánar um viðvaranir stofnana vegna fjölgunar smita í Evrópu. Því svaraði Ghebreyesus af miklum sóma og fagmennsku, enda hafa þau sem hafa stýrt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni við þær ótrúlegu aðstæður sem ríkt hafa um allan heim síðastliðið ár sýnt ótrúlega fagmannleg og góð viðbrögð og stjórn, sérstaklega varðandi vörslu um mannréttindi og aðgang okkar allra að heilbrigðisþjónustu.

Ég gæti talið hér upp endalausar ályktanir. Málefni Hvíta-Rússlands hafa verið ákaflega fyrirferðarmikil á þessu ári og sömuleiðis átökin milli Aserbaídsjans og Armeníu eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson minntist á í ræðu sinni. Þingið hefur stigið fast niður fæti, bæði til þess að fordæma ástandið í Hvíta-Rússlandi og til að stuðla að friði á milli stríðandi fylkinga í Aserbaídsjan og Armeníu.

Ég vil líka að lokum, herra forseti, þakka einlæglega fyrir þann tíma sem ég hef náð að vera formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Ég er ákaflega stolt af Íslandsdeildinni og ákaflega stolt af því hversu öfluga þingmenn við höfum átt þar inni og það hefur orðið til þess að okkur hefur verið treyst fyrir trúnaðarstörfum á vettvangi Evrópuráðsþingsins. (Forseti hringir.) Ég segi það enn og aftur að við eigum að tala meira hér um allt sem við gerum á vettvangi Evrópuráðsþingsins og vekja meiri athygli á því í störfum okkar og í íslensku samfélagi. (Forseti hringir.) Að því loknu óska ég líka nýjum formanni góðs gengis í öllum störfum okkar. (Forseti hringir.) Í formennsku Íslands í Evrópuráðinu eru spennandi tímar fram undan.