151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Alþjóðaþingmannasambandið 2020.

494. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. ÍAÞ (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg örugglega hægt að biðja starfsfólk þingsins um að senda fundarboð á fleiri þingmenn en fulltrúa í Íslandsdeildinni, það er alveg sjálfsagt að verða við því. Hins vegar bendi ég á að menn geta skráð sig á póstlista. Ég held að mjög margir þingmenn, eða þeir sem eru áhugasamir um alþjóðastarf, séu á póstlista hjá Sameinuðu þjóðunum, jafnvel hjá fleiri stofnunum, og fái þá boð á alls konar viðburði. Á tímabilum er maður að drukkna í boðum af þessu tagi og það er kannski ekki til þess að skýra málið að drekkja þingmönnum í alls konar boðum á ráðstefnur og fundi. Sjálf hef ég ekki sótt þá fundi sem Íslandsdeildin hefur staðið fyrir í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina eða Sameinuðu þjóðirnar, ekki neinn af þeim fjölmörgu fjarfundum eins og þar er vísað til. Það er ekki vegna þess að þeir hafi farið fram hjá mér, ég hef séð einhverja slíka fundi auglýsta, þeir hafa bara ekki vakið áhuga minn og mér hafa ekki fundist efnistökin eiga við umræðuna hér, jafn mikinn áhuga og ég hef haft á umræðum um heimsfaraldurinn og einmitt hvatt til þess að Alþjóðaþingmannasambandið láti það meira til sín taka og þjóðþing aðildarríkjanna.

Ég held að hv. þingmaður sé ekki búinn að missa af lestinni. Ég held að fleiri fundir séu í bígerð og hann mun alveg örugglega fá tækifæri til að sækja þessa fjarfundi og marga fleiri á næstu misserum. En ég tek alveg undir sjónarmið hans um að það þyrfti að koma upp betra yfirliti fyrir þingmenn þannig að þeir geti áttað sig á því hvað er á döfinni næstu vikur eða svo, framvinduna í þeim efnum.