151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

40 stunda vinnuvika.

133. mál
[17:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna og fyrir að leggja frumvarpið fram. Ég hef áður tekið til máls um það þegar hann hefur flutt það hér í þingsal, sem er orðið alloft. Ég hef ekkert á móti því að við höldum upp á 1. desember og mér finnst það reyndar mjög góð hugmynd, bæði út frá menningarlegu rökunum, sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir, og ekki síður út frá því sem hv. þingmaður kom reyndar líka inn á, samveru fjölskyldunnar sem kallað er eftir. Frídagar eru þar af leiðandi af hinu góða.

Það sem ég hef reyndar allt of oft sagt hér í þessu ræðupúlti, og er ekki enn komið í verk, er að mér þykir það skjóta skökku við að enn séu til lög sem heita lög um 40 stunda vinnuviku. Ég hef talað um það í nokkrum ræðum þar sem verið er að leggja til einhverjar breytingar á þessum lögum. Ég ætla aftur að beina því til þeirrar hv. nefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar, hv. allsherjar- og menntamálanefndar, að skoða það mál. Kannski ætti ég að láta það verða að veruleika að leggja fram lagafrumvarp þar sem lagt yrði til að þessi lög yrðu afnumin og þau fáu ákvæði sem eftir eru í þeim yrðu færð inn í önnur lög sem hefðu annað heiti. Eins og við vitum öll er verið að vinna að styttingu vinnuvikunnar og við höfum verið að gera það í töluverðan tíma. Við erum að tala um aukið frjálsræði þegar að vinnuvikunni kemur, hvernig fólk skipuleggur þetta, og mér finnst það mikil tímaskekkja að í lögunum standi eitthvað um 40 stunda vinnuviku. Það er stefnt að því að hún sé eitthvað allt annað en 40 stundir. Ég vildi bara koma þessu hér á framfæri.