152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[14:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, sannarlega get ég tekið undir með hv. þingmanni þegar hann nefnir að það er ekki bara kostnaður að byggja hjúkrunarheimili heldur er það líka sparnaður annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Líkt og ég fór yfir í ræðu minni blasir það við að það að við skulum hafa þrengt að heilbrigðiskerfinu kallaði á gífurlegan kostnað þegar heimsfaraldurinn skall á og heilbrigðiskerfið réð ekki við álagið. Þannig er það bara. Þess vegna eigum við að grípa til varna fyrir heilbrigðiskerfið núna og fara að byggja upp og nota þessa reynslu sem við höfum af heimsfaraldrinum til þess. Auðvitað búum við við manneklu í heilbrigðisþjónustunni, við vitum það, en það þarf bara að fara í markvissar aðgerðir til að reyna að laga það. Heilbrigðisstarfsfólk er ekki gripið úr grjótinu en það er hins vegar hægt að gera ýmislegt til að laða það að, til að fá það til að vera frekar í heilbrigðisgeiranum en leita ekki annað. Það er hægt að nýta fjármuni til þess, það er vinnuaðstaða, það er kjör o.s.frv. Það er auðvitað það sem við ættum að gera núna. Við eigum ekki að segja bara: Mikið er nú gott að þessi faraldur er genginn yfir, og gera svo ekki neitt til þess að vera tilbúin til þess að mæta þeim næsta því að það mun koma annar. Við getum ekki gengið svona að fólkinu okkar sem er að niðurlotum komið. Þegar við erum að segja að við þurfum að gera átak, að við þurfum að taka niður biðlista því að það sé búið að fresta svo mörgum aðgerðum út af Covid, þá er starfsfólkið okkar uppgefið og hefur kannski ekki krafta í átakið. Við þurfum aðeins að horfa á hvernig við förum með það.

Annars vil ég bara nota síðustu sekúndurnar til að hvetja hv. þingmann til að fjárlaganefnd fari í það verk að endurskoða 7. gr. í lögum um opinber fjármál (Forseti hringir.) sem fjallar um fjármálareglurnar sem eru sjálfvirkt ójöfnunartæki í lögum um opinber fjármál.