152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[15:36]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur þá er ekki búið að birta fjármálaáætlun og ég verð bara að viðurkenna að ég veit ekki hvort maður hafi heimild til að greina frá nokkru í henni fyrr en búið er að birta hana. Þar sem ég er ekki viss um það ætla ég ekkert að veita innsýn í það fyrr en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kynnir hana hér. En það sem skiptir hins vegar mestu máli er að stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að láta fjölgun listamannalauna þróast í takt við fjölgunina hjá þjóðinni. Ég lít því á það sem stóra áskorun fyrir mig að vinna í því að fjölga listamannalaunum. Það er með ólíkindum hversu jákvæð áhrif listamannalaunin hafa á menninguna og ég bind miklar vonir við að það sama geti tekist í fleiri listgreinum en í kvikmyndunum, þ.e. að við séum að fjölga störfum eins og við höfum gert þar.