152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[15:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hér er gríðarlega þarft mál á ferð. Helsta athugasemd mín er að þetta sé bara fyrir árið 2022 eins og ég nefndi í andsvörum áðan. Þar skortir, finnst mér, ákveðna framtíðarsýn. Þetta er sett í ákvæði til bráðabirgða og miðað við einhvern fjölda mánaðarlauna á þessu ári sem er líka dálítið skrýtið. Ég veit ekki alveg hvort búið er að gera ráð fyrir þessum samningum í einhverjum úthlutunum hingað til á árinu og hér sé þá eftir á leitað eftir heimildum eða lögum. Ég hefði kannski átt að spyrja hæstv. ráðherra að því áðan, því það er líka mismunandi hversu langir samningarnir eru og það þarf að hafa ansi hraðar hendur ef það á t.d. að ná níu mánaða samningum það sem eftir er ársins.

Ég sá frétt Stjórnarráðsins frá 15. janúar 2022 sem fjallaði um úthlutun listamannalauna árið 2022, þar sem var talað um að að þessu sinni hækkuðu listamannalaun um 4,6% í úthlutun ársins 2022 en samhliða var sett sérstök 100 millj. kr. hækkun samkvæmt fjárlögum ársins 2022 til að hækka listamannalaun. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt túlkun á þeirri fjárheimild. Alla vega var minn skilningur sá að þessi 100 millj. kr. aukna fjárheimild væri í fleiri listamannalaun en það þurfti að gera hvort tveggja og kannski er val ráðherra að hækka listamannalaunin þá í rauninni einn liður af því sem þurfti hvort eð er að gera. En eins og ég sagði, þetta er tímabundið, þannig að spurning mín í framhaldinu er: Þegar þessi tímabundna fjárheimild hverfur, lækka þá listamannalaunin aftur eða fækkar samningum í kjölfarið? Ég óskaði eftir minnisblaði í fjárlaganefnd um það hvernig þessu væri fyrir komið á næstunni og þar spurði ég t.d. til hversu langs tíma þessi tímabundna hækkun væri. Svarið er að þá er gert ráð fyrir því að framlag til hækkunar starfsmanna listamannalauna verði gert varanlegt í fjárlögum 2023 með því að nýta hluta þess útgjaldasvigrúms sem er gert ráð fyrir í málefnasviði 18 í fjármálaáætlun 2022–2026. Það er aftur áhugavert af því að útgjaldasvigrúm sem slíkt er nýtt í ákveðin verkefni og eftir því sem ég best sá var ekki sérstaklega verið að nýta einmitt útgjaldasvigrúmið í nákvæmlega það að hækka þannig að það er eitthvað annað að fara þarna út í staðinn.

Þetta er eitt af þessum vandamálum sem við eigum í erfiðleikum með við framkvæmd laga um opinber fjármál, það virðist ekki vera nein festa þrátt fyrir að það sé eitt af grunngildunum. Það er enginn fyrirsjáanleiki í því hvernig t.d. upphæð listamannalauna er að þróast. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan hafa þau ekki verið að taka eðlilegum neysluvísitölubreytingum eða af verðlags- og launaþróun, sem er áhugavert út af fyrir sig. Lýðfræðilegu breytingarnar eru heldur ekki teknar þar inn þannig að það verður ekki þessi raunaukning sem er t.d. á heilbrigðissviðinu þar sem er gert ráð fyrir að fólkið sé að fjölga, eða í því tilfelli eldra fólki að fjölga en fólki er samt fjölga yfir höfuð þannig að það á alveg við eins við á þessu málefnasviði. Þarna vantar, held ég, að einhver stigi dálítið fast til jarðar og setji einhverja stefnu til framtíðar, ekki bara fyrir árið 2022. Við eigum að vera í því fyrirkomulagi að setja stefnu, stjórnvöld eiga að setja sér stefnu til fimm ára. Ég hlakka rosalega til að fá í næstu viku að sjá fjármálaáætlunina og sjá hvernig þar verður tekið á þessum málaflokki.

Svarinu sem ég fékk fylgdi því miður súlurit en ekki tafla. Það er svona skemmtileg súla upp á 20% aukningu starfslauna listamanna á árinu 2022. Það eru þá þessar 100 milljónir sem voru nýttar til að hækka launin aukalega um fram þessi 4,6% sem voru í grunnforsendum fjárlagafrumvarpsins, sem er einmitt langt umfram neysluverðsvísitölu og launavísitölu. Þar sést að árið 2021 var hækkunin hvað, 1%, varla það, sýnist mér. Maður sér það ekki af því að kvarðinn er í 0%, 5% og svoleiðis þannig að maður sér ekki alveg nákvæmu tölurnar. 2020 sýnist mér verða um 4% hækkun á meðan vísitala neysluverðs er að hækka þarna um 3% og launavísitalan er að hækka um 6%, svona eitthvað á réttu róli kannski, 2019 svipað en 2018 er hækkunin undir bæði neysluverðsvísitölu og launavísitölu. Það er mjög óheppilegt þegar ekki er hægt að spá fyrir um þessa þróun til næstu ára.

Í fjármálaáætlun er til að mynda sett fram ákveðin upphæð fyrir þetta málefnasvið og það er yfirleitt á verðlagi þess árs sem það er sett fram og eftir því sem mig minnir helst þessi liður nokkurn veginn svipaður í gömlu fjármálaáætluninni en það þýðir náttúrlega samdrátt ef við tökum tillit til fólksfjölgunar og í rauninni líka ef tekið er tillit til launaþróunar, ekki neysluverðsvísitölu, af því að þetta er sem sagt á verðlaginu þannig að verðlagsþróunin kemur þar inn í. Launaþróun kemur þar ekki inn í. Nýsköpunarstyrkir listamanna eru að mestu leyti laun sem ættu þá að fylgja launaþróun. Það er eitthvað sem ætti að vera reynt að spá kannski fyrir um. Það er greinilega ekki þannig hérna.

Svarið sem ég fékk barst 27. janúar síðastliðinn og kemur þá eftir ákvörðun ríkisstjórnarfundar 25. janúar um að veita 450 milljónir í þennan málaflokk vegna þessara tímabundnu aðgerða vegna heimsfaraldurs Covid. Þar er farið tiltölulega nákvæmlega yfir að starfslaun listamanna í gegnum launasjóð tónlistarflytjenda séu 75 milljónir, í gegnum launasjóð sviðslistafólks 50 millj. kr. viðbótarframlag, sjóð tónhöfunda 150, tónlistarsjóð 50, útflutningssjóð tónlistar 40, hljóðritasjóð 40, ÚTÓN 10, Tónverkamiðstöð 10 og sviðslistasjóð 25. Þetta frumvarp kemur síðan ekki fram fyrr en 1. mars, rúmum mánuði seinna. Þetta er ekkert mikið meira í rauninni en kom í svari til fjárlaganefndar í lok janúar. Ég velti fyrir mér, bara tímans vegna, af því að þetta er vegna listamannalauna fyrir árið 2020, hvort tíminn þarna, þessi rúmi mánuður, sé eitthvað sem var óhjákvæmilegt, því það er alveg fjallað um þann hluta sem á að fara til 35 ára og yngri og virðist allt vera þarna. Það er örlítið erfitt að bera þetta saman, það er ekki sama framsetning þannig að maður gerir tékk við þetta og tékk við hitt og þetta virðist allt standast. Ég sé ekki að það sé neitt aukalega þarna heldur, það er kannski umreikningurinn yfir í mánaðarlaun sem er ruglingslegur en það ætti að vera alveg skýrt af því að það er líka skýrt í minnisblaðinu sem við fengum hver mánaðarlaunin eru orðin. Þá nema starfslaunin 490.920 kr. á mánuði en um verktakagreiðslur er að ræða, en þar hefur verið tekið tillit til frádráttar að í fjárlögum 2021 var tímabundið 225 millj. kr. framlag til eins árs vegna fjölgunar mánaðarlauna listamanna, sem er áhugavert, annað tímabundið framlag.

Ég held að þetta sé kannski lýsingin á því í heild sinni hver vandi þessa málefnasviðs er. Þetta eru allt tímabundin úrlausnarefni, vissulega að einhverju leyti út af heimsfaraldrinum, að sjálfsögðu, en það er samt heildarsýnin sem er þarna, þannig að ég fagna því þegar hæstv. ráðherra segir að hún sé að boða einhverjar endurbætur á þessum málaflokki.

Ég held að við verðum bara að bíða spennt eftir bæði fjármálaáætluninni, sem er eftir viku, og svo þessari heildarendurskoðun. Kannski að ráðherra komi aðeins inn á það hérna í umræðunni seinna hvenær er von á þessari heildarendurskoðun því að heildarendurskoðanir eru alltaf eins og þær eru. Eru einhverjir hlutar laga um listamannalaun sem eru augljóslega gallaðir? Væri hægt að taka allt þetta sem er tímabundið eins og er og gera það varanlegt áður en farið er í heildarendurskoðunina, bara til að taka það skref að grundvöllurinn sé tryggður áður en er farið í mögulegar breytingar? Við lendum oft í einhvers konar reiptogi, ef má orða það þannig, þ.e. að ef það á að breyta einhverju þá er eitthvað annað undir sem þvælist fyrir. Við sjáum það í stjórnarskrármálinu. Við sjáum það t.d. þegar verið er að reyna að breyta lögum um almannatryggingar varðandi kerfi öryrkja að það strandar á einu eða tveimur atriðum sem eru ákveðinn rýtingur í kannski ákveðinn stjórnarflokk eða eitthvað því um líkt og stoppar þá allt málið. Maður veltir því fyrir sér hvort það gæti verið sniðugt að leggja þessi tímabundnu atriði sem öruggan grundvöll og vinna þaðan frá í heildarendurskoðuninni, það er bara svona tillaga. Ég hlakka alla vega til að sjá þetta betur útskýrt í meðhöndlun nefndarinnar og kalla sérstaklega eftir því en ég býst við að þetta þurfi að vinna tiltölulega hratt af því að eins og ég segi, þetta er fyrir árið 2022.

Að lokum myndi ég eiginlega vilja sjá, ég nefndi það í öðru máli fyrir ekki svo löngu síðan, að svona frumvarp, sem fjallar um fjárheimildir fyrir árið 2022, fyrir núverandi ár, ætti í rauninni að fylgja fjáraukalagafrumvarp á sama tíma, það ætti að vera bandormur, af því að hérna erum við að samþykkja lög sem er ekki fjárheimild fyrir akkúrat eins og er, þó að það sé sagt að síðan eigi að taka tillit til þess í fjáraukalögum fyrir þetta ár. En það er eftir á. Við erum með fjáraukalagafrumvarp núna í höndunum sem við vorum að fjalla um áðan sem er ekki með þessar fjárheimildir, fyrirframfjárheimildir, en hérna er verið að tala um aukafjárheimildir sem eru ekki til staðar. Það verða lög sem verða birt, og það er ekki fjárheimild til þess að framkvæma lögin, bara stjórnarskrárlega séð. Það má ekki greiða neitt gjald nema fjárheimild sé fyrir því í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta er „hænan og eggið“-vandamálið sem ég var að vekja athygli á síðast. Þegar komið er með nákvæmlega svona frumvarp þá á líka að vera fjáraukalagafrumvarp af því að það á strax væntanlega að bregðast við og nota þessi lög. En eins og er eru þau án fjárheimildar.