152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[18:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Orð eru til alls fyrst. Þannig er það. Hugmyndirnar verða til í samtalinu. Þegar við förum að ræða saman sprettur upp ýmislegt sem síðan er hægt að vinna með í framtíðinni. Þess vegna held ég að þessi umræða sé af hinu góða og geti nýst í frekari umræðu um það umhverfi sem við höfum verið að búa listamönnum og listafólkinu okkar öllu sem hefur í gegnum sætt og súrt gert þetta samfélag fjölbreyttara og skemmtilegra.

Mér datt bara í hug, þegar ég hlustaði á hv. þingmann tala um þetta, að við erum með fyrirkomulag sem heitir sóknaráætlanir landshlutanna og í þessar sóknaráætlanir hafa verið veittir fjármunir til að standa með landshlutunum á ýmsa vegu, frumkvöðlum sem eru að vinna að sérstökum verkefnum en líka áhugasömum aðilum sem vilja setja upp listviðburði sem hafa þá verið settir upp í heimahéraði. Ég vil nefna sem dæmi að ég heyrði á þingi Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi flottar og framsæknar hugmyndir um Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, sem þarf auðvitað að fá fjármuni til að reka sig. Það voru háleitar hugmyndir um hana og það var kominn þar framkvæmdastjóri og stjórnandi. Allt kostar það peninga. Það væri gaman að heyra viðhorf um hvernig við gætum þá ræktað græðlingana sem eru úti á landsbyggðinni til að vinna að menningunni víðs vegar.