152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[18:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið sem við ræðum hér í dag snýst um laun listafólks en hugmyndirnar sem hv. þingmaður nefnir snúa kannski meira að verkefnunum, því sem við gætum bara kallað sprotastyrki skapandi greina. Þess vegna þykir mér alltaf dálítið skrýtið þegar ákveðinn hópur í samfélaginu talar niður fjárfestingu í skemmtilegra samfélagi, meira skapandi samfélagi, vegna þess að þetta er alveg ofboðslega ódýr fjárfesting miðað við það sem við fáum til baka, ekki bara í formi gleðistunda heldur líka, ef við viljum vera leiðinleg, í gjaldeyristekjum af útflutningi og allt það. En það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er list listarinnar vegna. Við eigum ýmsa verkefnasprota í dag sem við eigum að styrkja og við eigum að fjölga þeim. Við eigum akkúrat að leggja áherslu á að þeir nái út um landið vegna þess að listsköpun er hægt að stunda hvar sem er. Hún er mannaflsfrek og hún auðgar nærsamfélagið. Það er allt sem mælir með því að setja pening í verkefni af þessu tagi til þess akkúrat að styrkja byggð hringinn í kringum landið.