154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

Staða mála varðandi Grindavík, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er gott að fá tækifæri til að ræða stöðuna í Grindavík í upphafi þessa þings. Þar blasa við mjög stór úrlausnarefni. Þó að Alþingi Íslendinga sé ekki óvant því að fást við náttúruhamfarir og fyrirbyggjandi ráðstafanir þá má segja að sú staða sem er uppi í Grindavík sé að mörgu leyti fordæmalítil. Við þekkjum vissulega söguna frá Vestmannaeyjagosinu, 50 ár voru liðin frá því í fyrra, en að mörgu leyti var það samt ólíkur atburður og eftirköstin sömuleiðis. Það er margt sem bendir til þess að við stöndum frammi fyrir einu stærsta verkefni af þessu tagi í 80 ára sögu lýðveldisins og þótt lengra sé farið aftur. Eldsumbrotin á Reykjanesskaga, sem hófust með því sem kallað var einhvers konar ferðamannagos, hafa nú þegar haft gríðarleg áhrif, ekki síst á Grindavík þar sem fullkomin óvissa ríkir um framtíð byggðar. Eins og við þekkjum öll í þessum sal þá spá vísindamenn því að við séum á upphafsárum eldsumbrotatíma á Reykjanesskaganum öllum sem kunna að vara í áratugi. Þar erum við að tala um þéttbýlasta svæði landsins þar sem stór hluti landsmanna býr, meira en 30.000 manns.

Það sem við ætlum að ræða hér í dag er sérstaklega staðan í Grindavík en mér finnst rétt að nefna það hér í upphafi að staðan á Reykjanesskaganum sem slík er eitthvað sem verðskuldar umræðu hér á Alþingi. Við áttum samtal um hana á vettvangi þjóðaröryggisráðs í morgun. Þar eru ógnirnar margvíslegar, ekki eingöngu eldsumbrot sem geta ógnað byggð heldur líka orkuframleiðslu, heitavatnsframleiðslu, vatnsbólum og öðru slíku. Því stöndum við frammi fyrir því að fram undan kunni að vera örlagatímar í málefnum skagans alls. Við erum líka búin að vinna mikla vinnu hvað varðar kortlagningu á innviðum, kortlagningu á orkukerfum og öðrum innviðum, og lista upp sviðsmyndir um mögulega valmöguleika. En um leið og við höfum verið að grípa til slíkra aðgerða, eins og við gerðum til að mynda með varnargarða við Svartsengi og Grindavík, erum við meðvituð um að það er aldrei hægt að fá fullkomna vissu um það hvað gerist.

Tvisvar hafa almannavarnir og lögreglustjóri gefið fyrirmæli um rýmingu Grindavíkur, þ.e. 10. nóvember síðastliðinn, þegar miklir skjálftar höfðu valdið gliðnun yfirborðs jarðar og skyndilegt kvikuinnskot í Sundhnúkagígaröðinni færði mönnum heim sanninn um að það væri raunhæfur möguleiki að það færi að gjósa í Grindavík. Gosið kom svo upp annars staðar þann 18. desember og stóð í nokkra daga. Nokkrir tugir Grindvíkinga höfðu svo snúið aftur þegar annað áfall reið yfir. Hörmulegt vinnuslys varð í bænum þegar maður féll í sprungu og kom þá í ljós að of hættulegt þótti að hafast við í bænum á meðan sprungukerfið fyrir neðan hann hefði ekki verið fullkannað. Í kjölfarið kom upp gos rétt utan bæjar 14. janúar og síðan við efstu hús, og hraun rann inn í bæinn. Í raun má segja að árvekni almannavarna og vísindafólks í gegnum allt þetta hafi verið ótrúleg. Vel gekk að rýma bæinn í bæði skiptin en það liggur fyrir að við stöndum frammi fyrir stórum spurningum.

Við getum ekki sagt til um það hvort það verður öruggt á næstu misserum og árum að búa í Grindavík. Við erum ekki komin á þann stað að geta sagt til um það heldur að það sé útilokað. Fram undan er kortlagning á sprungukerfinu fyrir neðan bæinn, áframhaldandi vinna við mögulegar forvarnir eins og varnargarða og áframhaldandi greiningar á stöðunni. Því kann vel að vera að við stöndum í þeim sporum eftir eitt ár, tvö ár, að við metum að bærinn sé öruggur. Við erum ekki á þeim stað núna. Því skiptir miklu að við horfum núna til lengri tíma samhliða skammtímaviðbrögðum. Á leiðinni hingað inn eru frumvörp sem fyrst og fremst miða að því að framlengja þau úrræði sem þegar höfðu verið kynnt til sögunnar á Alþingi og varða húsnæðisstuðning og launastuðning. Fyrirhugað er að kaupa fleiri íbúðir til að reyna að tryggja aukið framboð af íbúðarhúsnæði fyrir Grindvíkinga, en það eru stærri ákvarðanir sem blasa við okkur. Við áttum mjög góðan fund fyrir hádegi í dag, formenn allra flokka á Alþingi, og ég tel mjög mikilvægt í ljósi þess að í þessum sal virðist vera mjög ríkuleg samstaða um þá meginlínu að það sé mikilvægt að eyða óvissu fyrir Grindvíkinga, að það sé mikilvægt að losa Grindvíkinga undan þeim skuldbindingum sem þeir eiga í Grindavík í sínu íbúðarhúsnæði, að við reynum nú að finna bestu leiðina fram á veg í þeim efnum. Þar hafa verið leiðir ræddar; uppkaup á öllu íbúðarhúsnæði í Grindavík þannig að ríkið verði eigandi að öllu húsnæði í samvinnu við lánveitendur, banka og lífeyrissjóði. Við höfum velt upp þeirri leið að ríkið greiði Grindvíkingum út eigið fé og lántakendur taki sömuleiðis þátt í slíkri aðgerð. Þetta verði gert til tiltekins tíma þannig að Grindvíkingar geti komið sér upp nýju húsnæði á nýjum stað en hafi valmöguleikann eftir tvö ár að meta það að snúa aftur og eiga sitt húsnæði í Grindavík. Þá verði þetta eiginfjárframlag gert upp.

Aðrar leiðir hafa verið nefndar; að flytja Grindavík á nýjan stað. Nú er ég ekki verkfræðingur en ég veit að annað eins hefur verið gert og er verið að gera í Svíþjóð í tengslum við bæinn Kiruna. Ég ætla því ekki að útiloka að ýmislegt sé hægt en ég veit að álitamálin eru mörg fram undan; hvort miða eigi við brunabótamat eða fasteignamat, hvernig eigi að búa um þetta í tímaramma, hvernig eigi að takast á við mismunandi stöðu fólks í bænum, hvaða almennu sjónarmið eigi að ráða, hvernig við tryggjum jafnræði íbúa. Mér finnst hins vegar mikilvægt í þeim efnum að það samtal eigi sér ekki eingöngu stað hér á Alþingi þó að það sé vissulega mjög mikilvægt. Við áttum, þrír ráðherrar í ríkisstjórn, fund með bæjarstjórn Grindavíkur fyrr í dag. Ég legg á það mikla áherslu að þær ákvarðanir sem við tökum hér á Alþingi munu skipta sköpum fyrir framtíð þessa byggðarlags og hvort Grindavík byggist á ný. Þá er fyrir öllu að það samtal eigi sér stað við Grindvíkinga. Það skiptir máli að ræða við bæjarstjórnina en það skiptir líka máli að ræða við íbúana alla. Ég lít svo á að í því ferli sem er fram undan, þar sem ég ætla ekki að þykjast hafa öll svör en er sannfærð um að það er okkar hlutverk, ríkisins, að leysa Grindvíkinga undan þeirri óvissu sem þau eru stödd í, þá skipti miklu máli að hlusta líka á sjónarmið íbúa. Því að heimili er hús, það eru veggir, þak og innviðir, en það er líka saga. Það er rætur og það er minningar og það skiptir máli að við eigum það samtal við þau sem eiga sínar rætur, sögu og minningar í Grindavík. Best tel ég vera ef við getum gefið þann valkost að þar byggist aftur upp blómleg byggð eins og verið hefur þegar svæðið er metið öruggt. Og ég veit að það eru mörg í bænum sem eru á þeim stað og önnur eru á þeim stað að vilja yfirgefa bæinn fyrir fullt og allt. Í þessum málum eru engar ákvarðanir einfaldar og ekki gott að taka ákvarðanir þegar áfallið er sem mest. Því trúi ég að þetta samtal skipti mjög miklu.

Ég gæti farið yfir ýmsa hluti, þá vinnu sem Náttúruhamfaratrygging var komin mjög langt með þegar það gaus í liðinni viku. Það þarf að endurmeta þá stöðu og meta tjónið upp á nýtt. Það var byrjað að greiða upp altjónshúsin fyrir helgi, svo að því sé haldið til haga. Frumvarp um rekstrarstuðning við fyrirtæki í Grindavík var komið langt en ég tel að það blasi við að sú vinna sem við erum að fara í, að reyna að ná saman um stóru myndina fyrir Grindavík, mun hafa áhrif á það hvaða leiðir við förum til að styðja við atvinnufyrirtækin. Ég held líka að forgangurinn sé réttur, að forgangsraða íbúum, leysa úr þeirra málum og í kjölfarið takast á við stöðu fyrirtækjanna í bænum.

Ég vil líka nefna sálræna stuðninginn sem hefur verið í boði alveg frá því að ákveðið var að rýma fyrst í Grindavík. Það hefur verið settur aukinn kraftur í þann stuðning eftir að eldsumbrot hófust fyrir rúmri viku og settur var á fót sérstakur samráðsvettvangur Stjórnarráðsins og Grindavíkurbæjar til að tryggja að það verði til staðar stuðningur og úrræði fyrir þau sem þess óska. Við miðum okkar áætlanir við að halda áfram aðgerðum til að verja byggð í Grindavík. Ég vil minna á að ég tel að varnargarðarnir hafi svo sannarlega sannað gildi sitt en eins og við ræddum hér í þessum sal þegar við samþykktum lagafrumvarp sem heimilaði uppbyggingu varnargarða þá vissum við að það væri aldrei hægt að ábyrgjast 100% að þeir væru vörn gegn öllu.

Ég er komin fram yfir tímann þannig að ég ætla ekkert mikið að segja að lokum annað en það að ég tel að það sé mjög ríkur vilji (Forseti hringir.) hér í þessu húsi til að finna lausnir og eiga samtalið við Grindvíkinga. Ég vona innilega að okkur gangi það vel. (Forseti hringir.) Slíkt frumkvæði hefur líka komið frá forystufólki stjórnarandstöðu þannig að það er ekki eins og það sé eingöngu mín hugmynd, svo sannarlega ekki. Ég held hins vegar að við séum öll á þeirri blaðsíðu að telja að saman getum við náð bestu ákvörðununum í þessu máli.