154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

aðbúnaður og þjónusta við fólk með fötlun vegna ástandsins í Grindavík.

[17:00]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan um stöðuna í Grindavík og málefni Grindvíkinga þá tel ég sérstaklega mikilvægt að ganga á eftir því að vel sé tekið utan um sérlega viðkvæma hópa í Grindavík. Til þess að ræða um einn slíkan hóp þá finnst mér mjög mikilvægt að draga það fram að við erum nýkomin út úr ákveðnu almannavarnaneyðarástandi, Covid-ástandi, þar sem það var skiljanlega og eðlilega gagnrýnt hversu lítið stjórnvöld höfðu hugsað út í sérstakar aðstæður fatlaðs fólks þegar kom að sóttvarnaaðgerðum og öðrum viðbrögðum stjórnvalda við heimsfaraldri, hversu illa undirbúin stjórnvöld voru til að sinna þörfum þessa hóps.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks setur sérstakar skyldur á herðar íslenskra stjórnvalda gagnvart því að tryggja aðbúnað fatlaðs fólks í neyðarástandi. 11. gr. samningsins er mjög skýr með þessar skyldur stjórnvalda. Þess vegna var mér brugðið þegar ég heyrði af því á fundi með Grindvíkingum að það húsnæði sem boðið hefur verið upp á hefur ekki verið við hæfi t.d. fyrir fólk sem þarfnast hjólastólaaðgengis. Ég vil því spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra: Hvaða aðgerðaáætlun er í gangi gagnvart þessum hópi innan Grindavíkur? Hvaða aðgerða hefur verið gripið til til þess að styðja við fatlaða einstaklinga innan Grindavíkur og tryggja að þau fái þá þjónustu og þau úrræði sem þau þurfa á að halda á meðan þau eru utan Grindavíkur? Stendur ekki til að bæta úr húsnæðismálum Grindvíkinga sem þurfa á hjólastólaaðgengi eða annarri þjónustu að halda sem allra fyrst?