154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

aðbúnaður og þjónusta við fólk með fötlun vegna ástandsins í Grindavík.

[17:02]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Mig langar að segja í fyrsta lagi að strax í nóvember þegar Grindavíkurbær var rýmdur gekk ég úr skugga um að það væri öruggt að fötluðu fólki sem var í þjónustu bæjarins hefði verið komið fyrir í öðrum bæjarfélögum og fékk þær upplýsingar að það hefði gengið vel fyrir sig. Ég þarf að kíkja sérstaklega á það atriði sem hv. þingmaður nefnir og vil þakka þingmanninum fyrir að taka það upp af því að það er afskaplega mikilvægt að við höldum mjög vel utan um þessa viðkvæmustu hópa, sem oft á tíðum eiga kannski einna erfiðast með að bjarga sér sjálfir. Það er okkar að halda utan um þá. Auðvitað er það sveitarfélagið sem sinnir þjónustu við fatlað fólk en við erum öll af vilja gerð til að aðstoða við það og ég mun setja mig í samband við sveitarfélagið hvað þetta varðar eftir þessa ábendingu.

Mig langar síðan að segja að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sett hóp í gang sem í sitja fulltrúar nokkurra ráðuneyta, m.a. félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Hópurinn á að reyna að tryggja að um sé að ræða framboð á sálfélagslegum stuðningi til Grindvíkinga. Þar segir sérstaklega að líta eigi til þessara viðkvæmustu hópa samfélagsins í þeirri vinnu þannig að það er eitthvað sem við erum að setja enn þá meiri kraft í núna eftir þá atburði sem áttu sér stað nýverið.