154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar í málum hælisleitenda.

[17:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og tek undir að þær upplýsingar sem dómsmálaráðuneytið veitti um stöðu í þessum málaflokki vöktu athygli í íslensku samfélagi í síðustu viku. Þessar upplýsingar vörpuðu ljósi á það sem mörg okkar hafa haldið fram í nokkuð langan tíma, að kerfin okkar séu komin að þolmörkum. Við höfum á síðustu tveimur árum tekið á móti um 9.000 manns sem hafa sótt um vernd á Íslandi. Á sama tíma hefur verið knýjandi húsnæðisvandi í landinu þannig að það hefur reynt á sérstaklega húsnæðismarkaðinn okkar að finna húsnæði fyrir fólk. Kostnaðurinn er mikill og ég verð að segja að ég sem ráðherra málaflokksins hef haft þungar áhyggjur af því að inngilding þeirra sem hingað koma sé ekki með þeim hætti sem við kjósum þegar fjöldinn er með þessum hætti. Staða mála í málaflokknum eða stefnan í málaflokknum er sú að það er á þingmálaskrá ráðherra að leggja fram breytingar á útlendingalögum sem ég mun gera fljótlega og biðja þingið um að taka hér til meðferðar til þess að þrengja reglur sem hér eru og samræma þær við löndin sem við helst berum okkur saman við, þ.e. Norðurlöndin, þannig að við séum með sambærilegar reglur í málaflokknum og Norðurlöndin hafa.