132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Endurbætur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði.

373. mál
[15:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og kunnugt er eru samgöngur við norðanverða Vestfirði oft ótryggar, einkum um vetrartímann þegar aðeins er hægt að fljúga meðan birtu nýtur. Nauðsynlegt hefur þótt að staðsetja sjúkraflugvél á Ísafirði til að tryggja að hægt sé að flytja sjúka eða slasaða til Reykjavíkur þegar nauðsyn krefur en sú staða getur komið upp á landsbyggðinni jafnvel þó að sjúkrahús séu vel búin tækjum og mannskap.

Eins og kunnugt er var fyrirhugað að sjúkraflugi yrði sinnt frá Akureyri eftir að flugvöllurinn á Þingeyri yrði tilbúinn og þar með hægt að fljúga frá norðursvæði Vestfjarða við flest skilyrði, m.a. í myrkri. Átti sú tilhögun að ganga í gildi frá næstu áramótum þrátt fyrir að flugvöllurinn á Þingeyri hafi ekki verið tilbúinn eins og til stóð. Þeirri fyrirætlan hefur nú verið breytt og sjúkraflugvél staðsett á Ísafirði enn um sinn enda kom í ljós að öryggi var ekki tryggt án þess. Ýmis skilyrði um endurbætur voru sett af hálfu yfirmanna sjúkrahússins á Ísafirði fyrir því að fyrirhuguð tilhögun um sjúkraflug teldist viðunandi og mikilvægt að komið sé til móts við þær þarfir.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hvaða áætlanir hafa verið gerðar um þær endurbætur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði sem nauðsynlegar eru taldar með tilliti til breytinga á fyrirkomulagi sjúkraflugs?

2. Hvernig standa framkvæmdir samkvæmt þeim áætlunum?