138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[09:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér gengur til atkvæða kallar umtalsverða skattahækkun yfir heimilin í landinu á tímum þar sem ekkert svigrúm er fyrir þau til að greiða hærri skatta. Samdráttur í atvinnu, lækkun launa og hærri afborganir af lánum gera það að verkum að heimilin geta ekki staðið undir þeirri byrði sem á að leggja á þau.

Fyrir liggur að við þurfum að leysa vanda ríkissjóðs og sá vandi verður ekki umflúinn. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt fram útfærðar og útreiknaðar tillögur um hvernig hægt er að mæta þeim vanda án þess að grípa til þeirra skattahækkana sem hér er um að ræða. Þær tillögur fela í sér að þeir peningar sem ríkið á sannarlega inni í séreignarsjóðunum séu teknir. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að þar með verða þeir peningar ekki notaðir síðar en við þurfum á þeim að halda og lífeyriskerfið er það stórt að við höfum efni á því að nýta þessa lausn. Við höfum ekki efni á því að fara þá leið sem ríkisstjórnin ætlar sér því hún mun kalla yfir okkur dýpri kreppu og lengri. Öll rök hníga í (Forseti hringir.) þá átt.