141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

110. mál
[11:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er margt gott í þessu máli og ég mun styðja það. Ég vil þó vekja athygli á því að margar skrifstofur sinna listgreinunum og þær hafa allar það hlutverk að efla listgreinarnar, hver á sínu sviði, annaðhvort með styrkveitingum til útgáfu eða með því að sinna kynningar- og markaðsmálum hér heima eða erlendis. Ég hefði kosið að við hefðum tekið stærra skref í þá veru að samræma og hagræða í kerfinu og efla þar með listgreinarnar sem slíkar í heild, bæði inn á við og út á við.

Ég vil líka vekja athygli á einu ákvæði sem er bráðabirgðaákvæði sem er að mínu mati jákvætt. Þar er skipuð nefnd til að fara heildstætt yfir útgáfu námsbóka og fleiri bóka. En eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstjórnar var að skrúfa fyrir það að aðrir en útgefendur á vegum hins opinbera gætu komið að námsgagnaútgáfu. Ég bind vonir við að með þessu móti munum við aftur sjá aukna fjölbreytni, að það verði ekki bara Námsgagnastofnun sem komi að útgáfu námsbóka fyrir grunnskólann heldur muni fleiri útgefendur geta sinnt því (Forseti hringir.) annars brýna verkefni.