143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[16:03]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef ekkert að fela, segir hæstv. innanríkisráðherra. Úr því að hæstv. innanríkisráðherra hefur ekkert að fela þá á hæstv. innanríkisráðherra ekki að fela neitt. Hæstv. innanríkisráðherra á að geta svarað því hvort þetta minnisblað er úr ráðuneytinu eða undirstofnunum þess. Það er ekki nóg fyrir hæstv. innanríkisráðherra að láta ráðuneytið rannsaka ráðuneytið, að láta rekstrarfélag Stjórnarráðsins rannsaka Stjórnarráðið. Það er ekki nóg. Það er ekki nóg fyrir almenning í landinu og starfsmenn ráðherra og hælisleitendur og áhugamenn um þessi efni að áleitnum spurningum sé svarað með ásökunum um árás á heiður og trúmennsku eða með fullyrðingum um róg og ofsóknir.

Þeir sem hafa í höndum, eins og ég, það minnisblað sem hér á að vera um að ræða, sjá að það er bæði að efni, stíl og áferð komið úr — eða a.m.k. búið til á þann hátt að það sé komið úr — ráðuneyti eða undirstofnun ráðuneytis. Það er algjörlega augljóst fyrir þann sem hefur í nokkrar vikur kynnst kansellískjölum og veit hvers konar minnisblöð þar eru búin til. Ef þetta minnisblað er ekki búið til í innanríkisráðuneytinu eða einhverri af helstu undirstofnunum þess er þetta ákaflega góð fölsun, en hverjum er í hag að falsa svona mál?

Þetta eru áleitnar spurningar og erfiðar og mín ráð til innanríkisráðherra eru þau að reyna ekki að svæfa málið, reyna ekki að grafa það, það er það hættulegasta, heldur reyna að leggja öll spilin á borðið, láta rannsaka málið og segja okkur hvernig á því stendur.