144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

lögregla og drónar.

449. mál
[17:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn sem er í fjórum liðum.

„1. Hefur lögreglan fest kaup á dróna eða fyrirhugar hún slík kaup? Hefur lögreglan eignast dróna með öðrum hætti? Er fyrirhugað að hún fái slíkan búnað að gjöf eða láni?“

Að fengnum upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra er svarið við þessari fyrirspurn svo: Lögreglan hefur ekki fest kaup á dróna og fyrirhugar hún ekki slík kaup. Lögreglan hefur ekki eignast dróna með öðrum hætti. Lögreglan fyrirhugar ekki að þiggja slíkan búnað að gjöf eða láni.

„2. Telur ráðherra lögreglu hafa lagaheimild til að kaupa og nota dróna?“

Svar okkar er að engar sérstakar heimildir eru fyrir lögreglu varðandi kaup eða notkun dróna, enda hefur ekki verið þörf á slíkum heimildum, samanber það svar sem ég gaf við spurningu nr. 1. Um hugsanlega notkun lögreglu mundu því gilda almennar reglur varðandi notkun ómannaðra loftfara. Um ómönnuð loftför gilda almennt sömu reglur og um mönnuð loftför, samanber lög um loftferðir, nr. 60/1998. Samkvæmt þeim lögum er loftfar skilgreint sem sérhvert tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar, samanber 1. mgr. 2. gr. laganna.

„3. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að dróni í eigu lögreglunnar nýtist frá degi til dags?“

Í því efni verð ég að vísa aftur til svarsins við fyrstu spurningunni þar sem ekki eru nein áform um kaup á dróna og ekki hefur verið farið yfir það til hvers hann ætti að nýtast með þeim hætti sem spurt er að á þessu stigi málsins.

„4. Telur ráðherra að setja þurfi sérstakar reglur um notkun lögreglunnar á drónum? Ef svo er, hvert yrði einkum efni slíkra reglna?“

Svarið við því er að komi til þess að lögreglan íhugi að nota dróna við löggæslustörf verður það tekið til skoðunar.

Hæstv. forseti. Ég vil nefna það, og held að minnið sé ekki að svíkja mig, að keyptur hafi verið dróni af hálfu borgara í þessu landi til að gefa vegna björgunarstarfa. Það var vegna atburða í sumar þegar verið var að leita að fólki. Þá var safnað fé til þess að kaupa dróna til að nýta við björgunarstörf. Ég held að það verði mjög áhugavert að sjá hvernig tækið muni nýtast. Ég tók sérstaklega eftir þessari söfnun og þeim markmiðum sem menn vildu ná með henni. Við búum við það á Íslandi að aðstæður eru víða oft mjög erfiðar við leit og björgun og björgunarsveitarmenn setja sig í verulega hættu við þau mikilvægu störf sem þeir sinna. Ég býst við því, svona til fyllingar þessari fyrirspurn, að við munum sjá með þeim dróna hversu miklu máli slíkur tækjabúnaður getur skipt þegar við tökumst á við jafn erfið verkefni eins og leit að fólki og björgun eru.