145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. 2. umr. um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 hefur tekið langan tíma því að við höfum verið að kljást hér og takast á um grundvallaratriði, hvort elli- og örorkulífeyrisþegar eigi að njóta jafnræðis á við launafólk í landinu og hvort bregðast eigi við hóflegum og eðlilegum óskum yfirstjórnar Landspítalans um úrbætur hjá spítalanum. Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram ítarlegar breytingartillögur sem hér verða greidd atkvæði um á eftir og allar horfa til bóta, þær mundu skila okkur betra samfélagi ef þær yrðu samþykktar. Við í Samfylkingunni munum almennt sitja hjá við tillögur meiri hluta fjárlaganefndar sem og við fjárlagafrumvarpið í heild.