145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um framlög Happdrættis Háskóla Íslands til Háskóla Íslands. Ef þær hugmyndir sem hér hafa verið uppi um að Hús íslenskra fræða verði reist og að ekki verði lengur til hola íslenskra fræða sem fengið hefur að vera þar alllengi er algert lykilatriði að happdrættið fái heimild í fjárlögum til þess að hefja framkvæmdir. Það er tilbúið með fjármunina í þessa þörfu framkvæmd sem ég hef enn ekki heyrt nokkurn hv. þingmann stjórnarmeirihlutans mæla gegn. Meira að segja hef ég séð þingsályktunartillögu frá hæstv. forsætisráðherra þar sem lagt var til að ráðist yrði í þá þörfu framkvæmd og byggt þar með Hús íslenskra fræða fyrir rannsóknir og kennslu á íslenskum fræðum, fyrir utan auðvitað handritin okkar sem eru á heimsminjaskrá UNESCO.

En ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera í því. Það á ekki að veita Happdrætti Háskóla Íslands neina heimild. Tillaga hæstv. forsætisráðherra sem lekið var í fjölmiðla og birtist framan á Fréttablaðinu 1. apríl reyndist bara aprílgabb eins og svo margt annað frá þessari hæstv. ríkisstjórn.