145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sérstaklega fyrir atkvæðaskýringu hans hérna. Hún var mjög mikilvæg vegna þess að hún undirstrikaði að þetta snýst um einhvers konar sáluhjálp fyrir enn eina delluhugmynd hæstv. forsætisráðherra, að koma henni einhvers staðar á pappír, og hv. stjórnarþingmenn láta sig hafa það að greiða atkvæði með vitleysunni, en í raun og veru hefur þetta enga þýðingu. Það hefur komið fram hér, kom raunar fram hjá forsætisnefndarmanni í umræðunni, að það væri litið svo á að forsætisnefnd ætlaði ekkert mark að taka á þessum texta. Það liggur þá fyrir, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur staðfest þann skilning, að þetta er bara sett fram sem andlegur stuðningur við delluhugmynd hæstv. forsætisráðherra. Það er því miður ekki í fyrsta skipti, en það stendur þarna og er í raun og veru meiri hlutanum til háðungar.