145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:06]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að greiða atkvæði með stjórnarmeirihlutanum því að ég tel að 200 millj. kr. aukning úr 315 millj. kr. sé veruleg viðbót.

En ég vek athygli á því að það þarf samt að ganga lengra. Meira fjármagn vantar vegna þess að bætt fjarskipti og ljósleiðaravæðing eru eitt brýnasta byggðamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag, því að það er grundvallarskilyrði fyrir landsbyggðina og landið í heild og sérstaklega landshlutana að geta bætt samkeppnisstöðu sína og verið samkeppnishæf til þess að efla atvinnulíf og bæta búsetuskilyrði í byggðum landsins. Það þarf að hraða þessari uppbyggingu umtalsvert miðað við það sem hefur verið.

En ég skal játa það að þarna er vel í lagt að þessu sinni og þetta er mjög gott fyrsta skref og ég ætla að greiða þessu atkvæði.