149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir hans ágætu ræðu. Ég þakka honum fyrir ágætishugleiðingu, kristilegar vangaveltur, sem koma sér vel í þessum sal. Ég vona að hann flytji þá hugleiðingu sem víðast og jafnvel inni í sínum eigin þingflokki.

Ég geri einstaklingum eða þingmönnum ekki upp annarlegar hvatir og fordæmi ekki. Ég legg bara skilning í orð sem falla og gjörðir manna. Ég vona að við náum saman um að sneiða aukaatriði utan af tillögu okkar sem hugsanlega valda einhverjum misskilningi, en tillagan er sú að leggja til að við búum okkur til stefnu í þessum málaflokki. Hann er snúinn. Hann er erfiður.

Hv. þingmaður nefnir fyrirkomulag í Danmörku og við höfum lengi horft til Norðurlanda sem fyrirmyndarþjóða. Danir eiga í miklum erfiðleikum varðandi þessa málaflokka og þeir ná ekki að rækja þessi mál eins og þeir sjálfir hefðu kosið. Þeir hafa þó sína stefnu sem þeir vinna að og reyna að gera það eftir föngum. Við þurfum að gera það sama. Hér eru tugir þúsunda af innflytjendum sem hafa í stórum dráttum plumað sig mjög vel. Þetta er liðsauki sem hefur verið kærkominn á Íslandi, enda höfum við búið við mjög hagstæðar aðstæður.