150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

útlendingastefna.

[15:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar kannski fyrst að taka það fram, af því að hv. þingmaður nefnir þá breytingu sem ég boðaði varðandi málsmeðferðartíma barna í efnismeðferð, að það snertir ekki bara eina fjölskyldu. Það snertir nokkrar fjölskyldur í kerfinu okkar sem hafa farið fram yfir þann tíma. Það eru þau einstöku mál sem við erum að reyna að flýta og mikilvægt er að fólk, eins og ég hef áður sagt, fái svar fyrr. Það er sú heildarsýn sem ég hef óskað eftir að þverpólitíska þingmannanefndin, sem komið var á fót aftur í haust, taki til skoðunar. Það var síðast gert á fundi á föstudaginn var. Það var mín beiðni að sérstaklega yrði rætt allt kerfið okkar, frá byrjun þegar fólk kemur hér að brottvísun, málefnum barna og fólks í viðkvæmri stöðu. Ég hef óskað eftir því að þingmannanefndin haldi áfram með þetta og ræði það og greini.

Þessi málaflokkur hefur tekið gríðarlegum breytingum á stuttum tíma. Við sjáum að á aðeins tíu árum hefur þeim sem hafa óskað hér um alþjóðlega vernd fjölgað úr 35 í yfir 1.000. Við höfum samið ný lög á grundvelli þverpólitískrar þingmannanefndar sem við erum að fylgja og það er auðvitað alltaf hægt að gera betur, skoða hvort framkvæmdin sé eins og lögin kveða á um, og það er einmitt það sem ég vil fá frá þverpólitísku þingmannanefndinni.

Varðandi þá spurningu hvort ég hafi farið á fund Vinstri grænna sem þingflokks þá er svarið nei.