150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

404. mál
[16:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, að þegar við eigum við skimanir og skimunarúrræði sé farið eftir bestu gagnreyndum upplýsingum og ráðleggingum skimunarráðs. Ég tek heils hugar undir það. Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kom aðeins inn á það áðan að tíðni leghálskrabbameina færi lækkandi og í því sambandi er rétt að minna á einn mjög mikilvægan þátt, að í tíð Álfheiðar Ingadóttur sem heilbrigðisráðherra var tekin upp bólusetning við HPV-vírusnum, en sú veira er einmitt vel þekkt að því að geta síðar, eftir smit, valdið leghálskrabbameini. Það hefur vafalítið einhver áhrif. Jafnframt er mikilvægt, aftur í samhengi við það sem hæstv. ráðherra sagði, að með því að flytja a.m.k. hluta af skimununum og þessari þjónustu inn á heilsugæslustöðvarnar erum við að stuðla að betri samfellu í þjónustu sem skiptir (Forseti hringir.) líka gríðarlega miklu máli.