150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

404. mál
[16:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við afar mikilvægt mál sem ég þakka Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að leggja fram fyrirspurn um, skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini. Hæstv. ráðherra fór yfir breytingarnar en umræðan er að mörgu leyti nokkuð sérhæfð og ég verð vör við að í samfélaginu eru miklar spurningar. Það er mikil óvissa og ég held að það sé mikilvægt að koma út upplýsingum um hvernig breytingarnar muni horfa við konum um land allt. Ég held að það sé afar mikilvægt að við komum því til skila í gegnum þessa umræðu núna. Það er mikilvægt að það sé góð og áreiðanleg þjónusta sem byggir á bestu þekkingu á hverjum tíma en það er líka mikilvægt að hún sé aðgengileg um land allt og í samfellu eins og hér hefur komið fram.

Ég óska eftir að ráðherra komi aðeins betur inn á hvort breytingar verði (Forseti hringir.) á brjóstaskimuninni úti um landið.