150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisúrskurðir og ofbeldi gegn börnum.

355. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég sakna þess kannski svolítið að heyra um mat á þessu. Við vitum til þess, það eru alla vega til frásagnir fólks sem segist hafa verið neytt til að umgangast foreldri sem hefur brotið á þeim. Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir segir þá er eitt mál einu máli of mikið. Það sem mér finnst vanta og það sem mér finnst alls ekki liggja ljóst fyrir er einhvers konar heildstætt mat á því hvenær gögn eru notuð til að hamla umgengni. Miðillinn Stundin sendi spurningu á sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu fyrir um ári síðan og spurði hvort það væru til gögn um efnislegar niðurstöður í málum þar sem viðkomandi hafi verið grunaður fyrir kynferðisbrot gegn barni sínu og þar sem metin var áhætta á að barni stafaði hætta af ofbeldi, hvort sem það var gagnvart sér eða systkinum sínum. Sýslumaður taldi sig ekki geta svarað þessum spurningum. Þessi gögn væru ekki til, það væri ekki nein gögn að finna. Með leyfi forseta, stendur í svari frá sýslumannsembættinu:

„Um nákvæman fjölda úrskurða frá 2009, um að umgengnisréttar njóti ekki við, þar sem talin var hætta á ofbeldi, eru því ekki til upplýsingar, en fullyrða má að þeir eru mjög fáir.“

Hér er embættismaður frá sýslumannsembættinu að segja að það séu mjög fáir úrskurðir til staðar þar sem talin var hætta á ofbeldi en umgengni samt sem áður leyfð.

Ég vil fyrst spyrja ráðherra: Telur hún ásættanlegt að það séu til nokkrir umgengnisúrskurðir þar sem barni er talin stafa hætta af umgengni við foreldri sitt? Er þetta yfir höfuð ásættanlegt svar? Þurfum við ekki að hafa betri gögn yfir það (Forseti hringir.) hvenær hætta á ofbeldi er talin nægilega mikil til að hamla umgengni við foreldri? Þegar við höfum ekki þessi gögn er mjög erfitt að staðreyna svör við þeim spurningum sem ég var að koma með til hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) hvort það sé tekið nægilega mikið mark á tilkynningum um ofbeldi. Ef við höfum engin gögn um það getur hæstv. ráðherra varla svarað því.