150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisúrskurðir og ofbeldi gegn börnum.

355. mál
[17:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er auðvitað mikilvægast að lagt sé heildstætt mat á hvert einasta mál og sérstakt mat lagt á aðstæður hverju sinni og þau gögn sem fram koma, sér í lagi ef þau gögn benda til að barni stafi hætta af ofbeldi. Það er ekki ásættanlegt að ekki séu til betri töluleg gögn um stöðuna en ég get fullvissað hv. þingmann um að ráðuneytið hefur undanfarið haft til sérstakrar skoðunar umgengnis- og dagsektarmál og óskað eftir tillögum og ábendingum um hvar við getum gert betur og hvar framkvæmdin þarfnast mögulegra breytinga og úrbóta. Allar tillögur eru til skoðunar. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort eða hvaða breytingar eigi að gera en þetta er til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu.

Varðandi börn og sjónarmið þeirra þá hafa þau vægi í hverju tilviki fyrir sig út frá aldri og þroska barnsins og öðrum málavöxtum þar sem mál eru metin heildstætt. Eftir því sem börn eldast hefur afstaða þeirra meira vægi og greini barn frá ofbeldi og/eða vilji ekki hitta foreldri sitt fer fram mat á því hvort barn eigi að fara í umgengni sérstaklega. Eins og áður hefur komið fram ber sýslumanni samkvæmt barnalögum að taka ákvörðun í máli, þar sem foreldra greinir á um umgengni, eftir því sem barni er fyrir bestu og sýslumanni ber að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimilinu hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir að barnið alist upp við góð skilyrði. Ef sýslumaður telur að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag eða þörfum þess kveður hann svo á um að umgengnisréttar njóti ekki við. Og það er mikilvægt að þessi mál séu skoðuð heildstætt, öll gögn, og að hagsmunir barnsins séu hafðir að leiðarljósi og ávallt á að taka ákvörðun sem er best fyrir barnið í þessum málum. (Forseti hringir.) En ég er með þessi mál til skoðunar, hvar við getum gert betur og hef átt gott samtal við sýslumannsembættin og hef séð mikinn vilja hjá þeim til að ræða þessi mál.