150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

málsmeðferð hjá sýslumanni í umgengnismálum.

357. mál
[18:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hér er farið yfir ýmislegt er varðar umgengnismál hjá sýslumanni. Ef sýslumaður fær upplýsingar í umgengnismáli sem varða 16. gr. barnaverndarlaga þá ber samkvæmt 17. gr. laganna að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda. Það er skýrt í lögunum en mismunandi milli embætta hvort það sé ávallt tilkynnt til barnaverndarnefndar ef foreldri hefur hlotið úrskurð um að greiða dagsektir. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eru ekki alltaf sendar tilkynningar í slíkum tilvikum heldur er það gert þegar sýslumaður hefur ástæðu til að ætla að aðstæður séu með þeim hætti sem lýst er í 16. gr. barnaverndarlaga sem og 2. mgr. 74. gr. barnalaga. Tilkynning hefur verið send til barnaverndarnefndar í um helmingi tilvika þegar úrskurðir um dagsektir hafa verið kveðnir upp hjá embættinu en önnur embætti hafa ýmist ekki fengið slík mál til meðferðar en myndu, ef þau bærust, leggja sjálfstætt mat á það hvort þörf væri á að tilkynna slíkt til barnaverndarnefndar. Sum embætti senda ávallt tilkynningu til barnaverndarnefndar þegar dagsektir hafa verið lagðar á vegna tálmunar á umgengni við barn. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef til að svara fyrstu spurningunni sem kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns.

Varðandi hvort það hefur nægilegt vægi í umgengnismálum þegar liggja fyrir lögreglutilkynningar þá vísa ég í svör áðan við fyrirspurn, þ.e. að ávallt eigi að gera heildarmat með öllum þeim gögnum sem fyrir liggja á því hvort umgengni sé barni fyrir bestu eða hvort umgengninnar ætti einfaldlega ekki að njóta við. Það er ekki hægt að alhæfa um það hvaða vægi lögreglutilkynningar hafa í öllum málum af því að eðli tilkynninga, alvarleiki máls og framvinda getur verið mismunandi í hverju og einu máli og því er mikilvægt að það sé metið heildstætt á grundvelli þessara upplýsinga og gagna sem fyrir liggja í málinu.

Varðandi hvaða starfsfólk hjá sýslumannsembættum hefur heimild til að taka viðtöl við börn og hvort slík viðtöl séu tekin þó að barn hafi þegar farið í viðtöl í Barnahúsi þá á barn samkvæmt ákvæðum barnalaga rétt á því að láta í ljós skoðanir sínar á öllum málum sem það varðar. Ákvæðið er í samræmi við ákvæði 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns sem hefur verið lögfestur hér á landi og rétt er því að tala um rétt barns til að tjá sig í málinu sem það varðar fremur en heimild starfsmanns hjá sýslumanni til að taka viðtal við barnið. Það er réttur barnsins sem verið er að tryggja og upplýsingar úr skýrslutöku Barnahúss eru mikilvægur liður í rannsókn vegna umgengnismáls. Tilgangur viðtals við barn í Barnahúsi er þó ekki til þess að kanna afstöðu barns til umgengni. Það að barn hafi átt viðtal í Barnahúsi eða við aðra aðila eða sérfræðinga utan embættis sýslumanns kemur því ekki í staðinn fyrir viðtal í málsmeðferð sýslumanns til að gefa barni kost á því og tryggja þann rétt að barnið geti tjáð sig um málið í samræmi við ákvæði barnalaga og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns. Við meðferð mála er varða forsjá eða umgengni hjá sýslumanni getur barn átt kost á því að tjá sig við sérfræðing eða sáttamann í tengslum við sáttameðferð, sérfræðiráðgjöf, umsögn, liðsinni, eftirlit eða viðtal samkvæmt 74. gr. barnalaga.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur það hlutverk að sinna þessari sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf á landsvísu, eru þeir starfsmenn sem taka viðtöl við börn sérfræðingar í málefnum barna. Hjá embættinu starfa fimm félagsráðgjafar með löggild starfsréttindi frá embætti landlæknis í rúmlega fjórum stöðugildum. Samkvæmt embættinu hafa umræddir sérfræðingar umfangsmikla og víðtæka starfsreynslu í sínu fagi við störf með börnum og í þágu barna og hafa hlotið sérstaka þjálfun í viðtalstækni í námi, sínu, þar á meðal viðtalstækni við börn. Hvort það gangi gegn hagsmunum barna að engin takmörk séu á því hversu oft sé hægt að óska eftir úrskurði sýslumanns um umgengni, álagningu dagsekta eða höfnun forsjármáls fyrir dómi þá getur reynst erfitt að ætla að takmarka þennan rétt of mikið af því að aðstæður geta breyst snögglega eða á skömmum tíma, t.d. vegna búferlaflutninga eða andláts. Því er erfitt að ætla að takmarka þetta sérstaklega en ef könnunin leiðir í ljós að forsendur séu algerlega óbreyttar getur verið fullt tilefni til að vísa málinu einfaldlega frá og það þá gert aftur. Það er vandmeðfarið að setja inn lágmarkstímafresti frá síðustu ákvörðun því að ef forsendur hafa breyst á mjög skömmum tíma eru forsendurnar ekki þær sömu og mögulega tilefni til að taka málið upp að nýju. Getur því verið varhugavert að setja því mörk hversu oft megi stofna mál hjá sýslumanni þar sem þetta eru þjónustustofnanir og eiga fyrst og síðast ávallt að taka ákvörðun um hagsmuni barnsins í umgengnismálum.

Ég tek þó aftur á móti undir þau sjónarmið sem hefur verið bent á, að skoða mætti mögulega að skerpa á heimildum sýslumanns í barnalögum til þess að vísa málum frá án umfangsmikillar málsmeðferðar ef forsendur hafa augljóslega ekkert breyst frá síðustu ákvörðun. Það mun ég skoða sem og þær ábendingar sem hv. þingmaður kemur með varðandi tálmun gegn barni, hvernig það er skilgreint og það er bara ábending að það sé skilgreint mismunandi. En ég get fullvissað hv. þingmann að það yrði aldrei skilgreint sem jafnstætt brot.