150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisréttur og hagur barna.

358. mál
[18:22]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu sem er mikilvæg. Það er mikilvægt að reyna að hraða þessari málsmeðferð og bæta hana til hagsbóta fyrir alla aðila. Það er rétt sem hv. þm. Halla Gunnarsdóttir kom inn á, og ég ítrekaði í fyrra svari mínu, að þetta eru ekki refsimál heldur á niðurstaðan að vera út frá hagsmunum barns hverju sinni. Það þarf að ræða þessi mál af yfirvegun og ábyrgð og ég er að skoða það að skerpa á þessum frávísunarmálum og tek öllum ábendingum um breytingar, enda er það til meðferðar í ráðuneytinu að skoða þetta. Ég hef átt góð samtöl til að reyna að styrkja þessa málsmeðferð, bæði til að hraða henni og sjá leiðir til að gera hana betri en ekki síst til að ná þessari gagnaöflun fram sem við erum að vinna að, sem er mikilvæg til að skoða hvaða áhrif breytingar á barnalögum hafa haft og hvort þær hafi haft áhrif á niðurstöður. Það er stórt rannsóknarefni og þyrfti að liggja yfir mörgum dómum, bæði dómum héraðsdóms og Hæstaréttar, til að sjá það í heildarsamhengi hlutanna. En við þurfum að geta fylgst með því hvernig breytingar okkar hafa áhrif og því þarf a.m.k. betri gagnaöflun að vera til staðar. Það er í vinnslu ásamt færslu á verkefnum og betri greiningu á því hvernig við getum haldið betur á þessum málum, skipulagt þau vel og haft þjónustuna þannig að fólk sé sátt við hana.