151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Evrópuráðsþingið 2020.

493. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. ÍÞER (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2020. Það er að sumu leyti óvænt verkefni, skulum við segja, en skýrslan fjallar um störf Íslandsdeildarinnar áður en að sá er hér stendur tók við sæti á Evrópuráðsþinginu og mun umfjöllun mín eðli málsins samkvæmt helgast mjög af því. Skýrslan er viðamikil og ágætlega samansett og rétt að þakka fyrir hana og ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér hana.

Eins og þingmönnum er kunnugt var meginviðfangsefni Evrópuráðsþingsins á árinu 2020 áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á málefnasvið Evrópuráðsins, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Þingið fjallaði einnig um jafnréttismál, mál flóttamanna, áhrif þróunar gervigreindar, mótmæli í kjölfar forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi og vopnuð átök í Nagorno-Karabakh.

Fyrsti fundur ráðsins var haldinn sem staðfundur en eftir fundinn í janúar 2020 fóru fundir yfir í fjarfundi og eru það enn þótt þingið sem var haldið nú í janúar hafi verið haldið í einhvers konar blendingsformi, hluti þingmanna var á staðnum en hluti á fjarfundi. Íslandsdeildin var að venju virk í starfi þingsins og meðlimir hennar tóku þátt í fjölda fjarfunda nefnda. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður skýrslu um pólitíska fanga í Aserbaísjan á þingfundi í janúar og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir var framsögumaður skýrslu um skilvirkt gæslumannakerfi fyrir fylgdarlaus börn í Evrópu á fjarfundi stjórnarnefndar í desember. Þess utan voru þær skipaðar framsögumenn fyrir fimm skýrslur til viðbótar og sinntu vinnu við þær.

Það bar til tíðinda að forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Tedros Ghebreyesus, ávarpaði fund stjórnarnefndar þingsins og fór yfir viðbrögð við faraldrinum og stöðu hans á heimsvísu. Raunar kom Ghebreyesus aftur á þingfund, fjarfund, í janúar síðastliðnum og ræddi um hættuna á því sem hann hefur ítrekað kallað bóluefnisþjóðernisstefnu og mikilvægi þess að ríki heims stæðu saman í baráttunni við faraldurinn vegna þess að faraldurinn væri aldrei unninn fyrr en hann væri unninn alls staðar. Umræður hafa síðan haldið áfram um þessi efni og munu vafalítið gera fram eftir þessu ári. Stjórnarnefnd tók líka fyrir átökin í Nagorno-Karabakh á fundi í október auk fleiri mála og einnig var nokkuð rætt um aðgerðir tyrkneskra stjórnvalda gegn stjórnarandstöðu þar í landi.

Aðalmenn Íslandsdeildarinnar á síðasta ári voru hv. þingmenn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Bergþór Ólason og mættu á fjöldann allan af fundum, stærsti hluti þeirra fjarfundir þó að einhverjir fundir, til að mynda fundurinn í janúar og stjórnarnefndarfundur í París í mars, hafi verið staðfundir. Eins og þingmönnum er kunnugt snýst umræðan í Evrópuráðinu eðli málsins samkvæmt mikið um mannréttindamál, þar með málefni flóttamanna. Á síðasta starfsári var einnig nokkuð fjallað um velferðarmál og um lýðræði og lýðræðisþróun og um stöðu réttarríkisins.

Eins og ég nefndi áðan voru þingmenn Íslandsdeildar mjög virkir á árinu og mér telst svo til að þeir hafi sótt um og yfir 50 fundi og á sumum þeirra voru fleiri en einn þingmaður úr Íslandsdeildinni. Ég ætla ekki að tíunda þetta mikið lengur en skýrslan er viðamikil og ég hvet þingmenn eindregið til að kynna sér hana. Ég ætla í lokin að þakka fráfarandi formanni Íslandsdeildarinnar fyrir góð störf á liðnum árum fyrir Íslandsdeildina og læt máli mínu lokið.