151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Evrópuráðsþingið 2020.

493. mál
[14:27]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skýrslurnar sem samþykktar eru í Evrópuráðsþinginu eiga sér nokkuð langan aðdraganda. Fyrst eru samþykktar eins konar þingsályktunartillögur til undirskriftar frá ákveðnum fjölda, hóps þingmanna til að halda áfram þeirri vinnu í viðkomandi nefndum. Síðan fer faglega vinnan fram með umræðum, líka inni í þingsal og atkvæðagreiðslum, bæði í nefndum og í þingsal. Það er heilmikið ferli sem býr þarna að baki þegar skýrslurnar eru samþykktar. Skýrslurnar eru líka samþykktar eftir þetta mikla ferli, þetta mikla lýðræðislega og faglega ferli vegna þess að Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið býr yfir alveg ótrúlega faglegum og flottum sérfræðingum, gríðarlega góðum. Ég nefni þar, vegna þess að við erum að tala um gervigreindina, Jan Kleijssen sem er yfir gervigreindarmálunum og hefur verið að gera ótrúlega góða hluti, sérstaklega við að tengja gervigreindina inn í mannréttindi, inn í lýðræðið o.s.frv.

Evrópuráðið hefur líka verið í ágætu sambandi og samvinnu við Evrópusambandið þegar kemur að gervigreind og ég verð að segja að þegar kemur að þessum málum erum við Íslendingar mjög aftarlega, hvort sem það er í umræðu, lagasetningu eða vitneskju um gervigreind, áhrif hennar og þann hraða sem gervigreindin er á akkúrat núna. Ég hvet þá þingmenn sem eru hér í þingsal eða hlýða á þessa umræðu að kynna sér vel vinnuna sem Evrópuráðið hefur innt af hendi þegar kemur að gervigreind. Ég veit að forsætisráðherra hefur skipað starfshóp (Forseti hringir.) sem á að fjalla um áhrif gervigreindar og þar er mikill reynslubanki og um auðugan garð að gresja þegar kemur að Evrópuráðinu og því starfi sem þar er.