152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[18:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra Lilju Alfreðsdóttur fyrir þetta frumvarp. Það er nú einu sinni þannig að menningin er grundvöllur góðs samfélags og listin er eitthvað sem við þurfum virkilega að fjárfesta í sem samfélag. Já, ef ég hefði kunnað að syngja og dansa þá hefði ég sennilega endað sem sviðslistamaður því að fyrir einum 33 árum síðan sótti ég um í leiklistarskólanum, ætlaði að feta í fótspor móður minnar sem var lærður leikari en endaði reyndar sem stærðfræðikennari. En þó svo að við séum að tala hér um aukningu á styrkjum eða stuðningi við listamenn hefði ég viljað sjá miklu meira. En ég veit að það er barátta sem hæstv. ráðherra þarf að heyja inni í ríkisstjórninni, hún hefði eflaust viljað setja dálítið mikið meira í þetta.

En við þurfum einmitt að hugsa það sem samfélag hvernig við getum stutt við list, og þá vil ég sérstaklega horfa til nýrra listamanna, ungra listamanna. Ég man að fyrir kosningarnar hitti ég nokkra unga hönnuði sem sögðu að þær þyrðu eiginlega ekki að sækja um listamannalaun, að það væru svo fáir mánuðir í boði að þeim fyndust þær vera að taka eitthvað frá eldra fólkinu. Þess vegna finnst mér mjög gott að sjá að í þessu frumvarpi er verið að eyrnamerkja styrki fyrir fólk undir 35 ára aldri. Við þurfum að finna út úr því saman sem samfélag hvernig við getum stutt við nýsköpun og listafólk, sérstaklega unga fólkið. Mér finnst hafa komið upp góðar hugmyndir hér eins og að stækka pottinn en kannski ekki eyrnamerkja hann allan og o.s.frv. Mér finnst það ágætt. En það er einn hlutur sem mér krossbrá við að heyra og það er að þetta séu verktakagreiðslur. Ég hélt alltaf að þetta væru greiðslur sem færu alla leið. Það er svolítið asnalegt að við séum að taka úr einum vasa og svo fer þetta aftur inn í ríkið að hluta til. Við þyrftum að finna leið til þess að stuðningur við list sé skattfrjáls. Ég vona að við getum einhvern veginn komið því í gegn hjá hæstv. fjármálaráðherra, kannski þegar við erum búin að gefa honum of mikið af súkkulaði eða kökum eða eitthvað hérna frammi í kaffiteríunni. En það er af hinu góða, við þurfum að gera meira og ég veit að það er vilji til þess. Við þurfum bara að finna út úr því hvernig við fáum þingið allt til að styðja slíkt.